Enski boltinn

Lést á leiðinni heim úr fót­bolta­leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ethan McLeod gekk til liðs við unglingaakademíu Wolverhampton Wanderers sjö ára gamall en náði aldrei að spila fyrir aðallið félagsins.
Ethan McLeod gekk til liðs við unglingaakademíu Wolverhampton Wanderers sjö ára gamall en náði aldrei að spila fyrir aðallið félagsins. Getty/Jack Thomas

Ethan McLeod, framherji enska fótboltaliðsins Macclesfield, lést í bílslysi á M1-hraðbrautinni á þriðjudag þegar hann var á leiðinni heim úr fótboltaleik.

McLeod, sem var aðeins 21 árs gamall, var að koma til baka eftir leik liðs síns í norðurdeildinni gegn Bedford Town, þar sem hann hafði verið varamaður.

Slysið varð um klukkan 22:40 um kvöldið nálægt Northampton þegar hvít Mercedes-bifreið hans lenti á vegriði. Breska ríkisútvarpið segir frá.

Macclesfield lýsti McLeod á miðlum sínum sem „ótrúlega hæfileikaríkum“ og „vel metnum meðlimi“ í leikmannahópi sínum.

Í yfirlýsingu frá félaginu sagði: „Fréttirnar af andláti Ethans hafa lagt allt félagið okkar í rúst og engin orð geta lýst þeirri gríðarlegu sorg og missi sem við finnum fyrir núna.“

McLeod gekk til liðs við unglingaakademíu Wolverhampton Wanderers sjö ára gamall.

Hann lék síðar með U21-liði félagsins í EFL Trophy en kom aldrei við sögu með aðalliðinu.

Framherjinn, sem er fæddur í Birmingham, var um tíma á láni hjá Alvechurch í suðurdeildinni, áður en hann lék stuttlega með Rushall Olympic og Stourbridge eftir að hafa yfirgefið Molineux.

Hann kom til Macclesfield í júlí eftir vel heppnaðan reynslutíma.

Macclesfield lýsti McLeod sem manni með mikinn „lífsþorsta“ og „óbilandi vinnusiðferði“, sem væri innblástur fyrir þá sem voru í kringum hann. Félagið minntist líka á „einstakt bros“ hans og sendi fjölskyldu og vinum leikmannsins samúðarkveðjur.

„Djúpu andlegu örin sem andlát Ethans skilur eftir sig munu óneitanlega aldrei gróa – en eitt er víst, og það er að lífleg arfleifð Ethans mun aldrei fölna, sama hversu langur tími líður,“ bætti félagið við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×