Enski boltinn

Fagnaði titli Liverpool sem óður maður um alla borg

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gerrard spilaði undir merkjum Liverpool í styrktarleik á Anfield í mars. Hann segist vera til í að hjálpa liðinu hvar sem er og hvenær sem er, sé þess óskað.
Gerrard spilaði undir merkjum Liverpool í styrktarleik á Anfield í mars. Hann segist vera til í að hjálpa liðinu hvar sem er og hvenær sem er, sé þess óskað. LFC Foundation/Liverpool FC via Getty Images

Steven Gerrard, goðsögn hjá Liverpool á Englandi, segist enn dreyma um að stýra liðinu sem knattspyrnustjóri einn daginn. Hann vonast til að Arne Slot, þjálfari liðsins, snúi gengi þess við.

Eftir lofandi byrjun á þjálfaraferli Gerrard þar sem hann gerði Rangers í Skotlandi að landsmeisturum án þess að tapa leik tímabilið 2020 til 2021. Hann tók í kjölfarið við Aston Villa á Englandi sem hann vonaðist til að myndi nýtast sem stökkpallur til liðsins sem hann lék fyrir nánast allan sinn leikmannaferil.

Dvölin í Birmingham-borg gekk þó ekki sem skildi og Gerrard entist skammt í starfi. Hann starfaði svo sem þjálfari Al-Ettifaq í Sádi-Arabíu í 18 mánuði áður en hann sneri heim til Englands í janúar síðastliðnum.

Hann hefur verið orðaður við endurkomu til Rangers og einhverjir stuðningsmenn Liverpool sem nefndu nafn hans sem mögulegan bráðabirgðastjóra skildi Liverpool segja upp Arne Slot vegna slaks gengis meistaranna í haust.

Gerrard segist í viðtali við Liverpool Echo fyrst og fremst vera stuðningsmaður liðsins. Hann hafi stutt það alla ævi og fagnað Englandsmeistaratitli þess í vor eins og óður maður út um alla borg.

„Ég vil ekki að Arne Slot missi starfið sitt. Ég vil að hann lagi þetta, snúi genginu við og geri Liverpool frábært. Ég skoppaði út um alla borg að fagna titlinum í vor,“ segir Gerrard.

Hann muni hins vegar ávallt vera klár ef kallið kemur frá félaginu.

„Ég skal vera algjörlega hreinskilinn. Ég myndi taka við hvaða starfi hjá Liverpool sem er, allar mínútur, alla daga. Ég myndi hjálpa þeim við hvað sem er,“ segir Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×