Innlent

Ráðning ráðgjafa­fyrir­tækja skekki myndina milli stjórnar og stjórnar­and­stöðu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Sigmundur Davíð er afar gagnrýninn á að ráðherrar ríkisstjórnar hafi ráðið ráðgjafafyrirtæki til að aðstoða sig með ýmis mál.
Sigmundur Davíð er afar gagnrýninn á að ráðherrar ríkisstjórnar hafi ráðið ráðgjafafyrirtæki til að aðstoða sig með ýmis mál. Vísir/Anton Brink

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir það skekkja myndina á milli stjórnar og stjórnarandstöðu að ráðuneytin njóti aðstoðar ráðgjafafyrirtækja auk þess að vera með aðstoðarmenn, sérfræðinga og embættismannakerfið.

Hann segir flokk sinn hafa notað þjónustu ráðgjafafyrirtækja fyrir kosningar en aðeins á eigin vegum. Hann gagnrýnir að ríkisstjórnin nýti þjónustu slíkra fyrirtækja og segir skrítið að ríkisstjórnin noti þannig ríkið til að greiða fyrir sinn pólitíska áróður.

Fjallað hefur verið um það síðustu daga að fimm ráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneytið, atvinnuvegaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og utanríkisráðuneytið hafi notið þjónustu ráðgjafafyritækisins Athygli og greitt þeim á þriðja tug milljóna fyrir á síðustu tólf mánuðum.

„Því að þeir hafa auðvitað aðstoðarmenn og mikinn fjölda aðstoðarmanna sem að sífellt hefur farið vaxandi, og oft verið gerðar athugasemdir við það, en menn hafa ekki látið það stoppa sig og bæta stöðugt við aðstoðarráðgjöf inni í ráðuneytunum,“ segir Sigmundur Davíð sem var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni.

Hann segir ráðherra auk þess hafa allt embættismannakerfið að baki sér og því finnist honum „með stökustu ólíkindum“ að ráðherrarnir þurfi svo að ráða ráðgjafa hjá almannatengslafyrirtæki til að aðstoða sig áður en þeir fara í viðtöl og skrifa greinar.

Sigmundur Davíð segir að ef Miðflokkurinn komist til valda þá myndi flokkurinn fækka starfsmönnum ráðuneytanna.

„Við höfum sagt það áður að við teljum tilefni til þess að draga saman seglin hjá stjórnkerfi hins opinbera. Enda hefur það vaxið mjög umtalsvert. Forsætisráðuneytið er til dæmis, held ég, búið að tvöfalda þetta að stærð frá því ég vann þar, hvað varðar starfsmannafjölda.“

Miðflokkur vilji minnka umsvif hins opinbera

Spurður hvar hann myndi byrja segir Sigmundur Davíð að hann hafi gagnrýnt það þegar aðstoðarmönnum ráðuneytanna var fjölgað í alls 23 eftir hrun. Hann segist sjálfur hafa verið tregur til að nota þessa heimild en hún hafi verið nýtt bæði eftir að hann sat sem forsætisráðherra og fyrir.

Sigmundur segir að frá þessum tíma hafi þeim fjölgað enn frekar. Til dæmis eru skráðir á vef stjórnarráðsins 26 aðstoðarmenn ráðuneyta og ríkisstjórnar. Þar af eru fjórir skráðir aðstoðarmenn ríkisstjórnar og er einn þeirra í leyfi. Hver ráðherra er skráður með tvo aðstoðarmenn.

Hann segir, til dæmis, búið að ráða í nokkur ráðuneyti, til dæmis forsætisráðuneyti, sérfræðinga á ýmsum sviðum sem Sigmundur Davíð segir tengjast pólitískum áhugamálum eða áherslum ráðherrans og hann velti því fyrir sér af hverju embættismenn í ráðuneytinu geti ekki unnið að þessum verkefnum.

„Það er af því að ráðherrarnir vilja fá enn meiri aðstoð og þá auðvitað skekkist enn myndin milli stjórnar og stjórnarandstöðu þegar ráðherrarnir eru með allt embættismannakerfið, alla þessa pólitísku embættismenn, auk þess að ráða inn alls konar sérfræðinga á sínum sviðum og kaupa svo, láta skattgreiðendur borga fyrir sig pólitískan áróður,“ segir Sigmundur.

Sigmundur Davíð segist ekki kannast við fyrri dæmi þess að ríkisstjórn hafi áður greitt fyrir ráðgjafarþjónustu í kynningarmálum eða viðkvæmum málum og telur að í norrænum stjórnmálum telji hann að það myndi vekja athygli ef ráðherrar yrðu staðnir að því að „reka slíkan pólitískan áróður“.

„Nú ertu búinn að segja pólitískan áróður ítrekað, en er þetta ekki bara eðlilegt að þegar að kemur inn í ríkisstjórn, og það eru nú einhverjir nýliðar líka í ráðherraembættum, bara nánast allir, þurfi þeir aðeins að aðstoða svona fyrstu mánuðina og svo er það búið?“ spyr Lilja Katrín Gunnarsdóttir, þáttastjórnandi Bítisins þá.

Sigmundur svarar því á þá leið að þeir sem verði ráðherrar verði að teljast færir, eða eiga að teljast færir, að kynna sína eigin pólitík sjálfir og berjast fyrir henni.

„Þetta er grundvallarmunur annars vegar á hlutverki embættismanna og það var nú þannig að embættismenn vildu ekki blanda sér í það sem er kölluð pólitík, það er að segja flokkspólitíkin, og ég hugsa að flestir hafi þá reglu enn þá,“ segir Sigmundur Davíð.

Embættismenn forðist pólitík

Það séu þó dæmi um að ráðherrar hafi notað vefsíður ráðuneytanna í pólitískum tilgangi.

„Embættismenn hafa ekki viljað taka að sér þetta pólitíska hlutverk, forðast það mjög,“ segir Sigmundur og gagnrýnir að þegar staðan sé þannig sé einfaldlega gripið til þess ráðs að ráða ráðgjafafyrirtæki í staðinn.

Sigmundur Davíð telur æskilegt og mikilvægt að hægt sé að hafa betri stjórn á stærð opinbera kerfisins en þetta mál, ráðning ráðgjafafyrirtækis, sé annars eðlis.

„Af því að þar er ekki bara verið að stækka báknið. Það er verið að nota skattfé til að reka pólitískan áróður,“ segir hann og að í umfjöllun Spegilsins á RÚV sé því lýst „á ótrúlegan hátt“ hvernig ráðherrar hafi notað almannafé til að „kaupa aðstoð í pólitíska slagnum“.

Hann segir almannafé auðvitað líka notað til að greiða fyrir starf stjórnarandstöðu í gegnum Alþingi en einmitt þess vegna megi ekki ganga á lagið með að nýta fé ráðuneyta í slíkt.

Spenntur að kynna nýjan oddvita

Sigmundur Davíð segir styttast í að listar flokksins verði kynntir fyrir sveitarstjórnarkosningar.

„Þetta er allt í vinnslu. En ég get náttúrulega sagt að ég hlakka til kynningarinnar þegar hún verður,“ segir hann spurður hvort hann sé kominn með oddvita í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×