Innlent

Fleirum þykir Flokki fólksins ganga illa að hrinda málum í fram­kvæmd

Agnar Már Másson skrifar
Inga Sæland búin til framkvæmda. Almenningi þykir aftur á móti flokki hennar ekki ganga sérstaklega vel að hrinda málum sínum í framkvæmd.
Inga Sæland búin til framkvæmda. Almenningi þykir aftur á móti flokki hennar ekki ganga sérstaklega vel að hrinda málum sínum í framkvæmd. Vísir/Bjarni

Fleirum finnst Flokki fólksins ganga illa heldur en vel að koma málum sínum til framkvæmda í núverandi stjórnarsamstarfi, samkvæmt nýrri könnun. Alla jafna þykir almenningi samt núverandi stjórnarflokkum ganga betur að hrinda málum sínum í framkvæmd saman borið við fyrrverandi ríkisstjórn í desember 2023.

Tæplega 42 prósent svarenda í nýrri könnun maskínu segja Samfylkingunni ganga vel og rúmlega 28 prósent segja henni ganga illa að koma sínum málum í verk. Rest segir flokknum ganga í meðallagi.

Þá töldu 36 prósent svarenda að Viðreisn gengi vel að koma málum í framkvæmd og 31 prósent töldu flokknum takast það illa en aðrir segja flokknum ganga í meðallagi.

Aftur á móti telja um 29 prósent að Flokki fólksins gangi vel að hrinda sínum málum í framkvæmd en 44 prósent telja flokknum ganga illa við það og rest segir flokknum ganga í meðallagi. 

Flokki Ingu Sæland hefur gengið brösuglega að ná fram áherslumálum á borð við 48 strandveiðidaga og tengingu almannatryggingakerfisins við launavísitölu, en málin fengu ekki afgreiðslu fyrir þinglok í sumar. 

Meðal áherslumála flokksins sem hafa náð fram að ganga eru aftur á móti lögfesting samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og frumvarp sem heimilar gæludýrahald í fjölbýli.

Úr könnun sem Maskína framkvæmdi.Maskína

Sömu spurningar var spurt í desember 2023, á tímum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þar þóttu Sjálfstæðismenn standa sig best þar sem 30 prósent töldu þeim ganga vel en 31,5 prósent töldu flokknum ganga illa. 

Tæp 17 prósent töldu Framsókn ganga vel að hrinda málum í framkvæmd en og 30 prósent töldu þeim ganga illa. Verst gekk Vinstri grænum en þar töldu 13 prósent að flokknum gengi vel og 48 prósent að flokknum gengi illa að ná málum sínum fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×