Innlent

Hátt í hundrað á fjöldahjálparstöð

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Björgunarsveitir vinna hörðum höndum við að koma ferðamönnum til bjargar.
Björgunarsveitir vinna hörðum höndum við að koma ferðamönnum til bjargar. Landsbjörg

Hátt í þrjátíu manns hafa verið ferjaðir með bílum björgunarsveita á Suður- og Suðausturlandi á fjöldahjálparstöð í Hofgarði í dag. Um fjörutíu ökutæki sitja föst við Kotá.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu. Björgunarsveitir hafa frá því í hádeginu í dag verið við störf í Öræfum við að koma ferðafólki til aðstoðar í afar slæmu veðri og vondri færð.

Ljóst er að hátt í hundrað manns verða flutt á fjöldahjálparstöðina. Björgunarsveitin Kyndill frá Kirkjubæjarklaustri var boðuð út undir kvöld til að bætast í hópinn og liðsauki er lagður af stað frá Höfn sömuleiðis.

Hafin er vinna við að útvega hópnum gistingu á hótelum og gistihúsum í nágrenninu.

Fyrstu sveitir voru kallaðar út um hálf eitt í dag en þá var björgunarsveitin Kári í Öræfum kölluð út. Í tilkynningu segir að fljótlega hafi komið í ljós að talsverður fjöldi ferðamanna hafi verið í vandræðum milli Freysness og Fagurhólsmýrar.

Björgunarfélag Hornafjarðar fór á staðinn á tveimur stórum bílum en fyrir á vettvangi var dreki þeirra Kárafélaga, brynvarinn bíll sem þolir mikinn vind.

„Veður á svæðinu var vægast sagt slæmt og vindhviður upp í 40 metra á sekúndu. Fólk sem var á staðnum og fór út úr bílum sínum lenti í vandræðum við að fóta sig og komast aftur inn í bíla. Gripið var til þess ráðs að koma skilaboðum í síma á svæðinu þess efnis að biðja fólk um að halda sig í bílum sínum þar til hjálp bærist,“ segir í tilkynningu.

Vegfarendur eru hvattir til að vera inni í bílum sínum þar til björgunarsveitir koma á staðinn.Landsbjörg

Þegar tilkynningin var send út seint á sjötta tímanum höfðu hátt í þrjátíu manns verið flutt af vettvangi í bílum björgunarsveita inn á fjöldahjálparstöð sem opnuð var í Hofgarði fyrr í dag. 

Þá hafa björgunarsveitir aðstoðað ferðamenn í um tuttugu ökutækjum við Sandá og snúið þeim til vesturs í átt að Freysnesi. Um fjörutíu ökutæki sitja enn föst við Kotá. Fram kemur í tilkynningu að bílar verði skildir eftir á svæðinu þar til veður lægir, björgunaraðgerðir standi enn yfir. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×