Lífið

Eyja­menn dansa með tröllum um helgina „eins og al­vöru sértrúarsöfnuður“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kristleifur sér um tröllaskemmuna í ár líkt og fyrri ár.
Kristleifur sér um tröllaskemmuna í ár líkt og fyrri ár.

Árleg þrettándagleði fer fram í Vestmannaeyjum með tilheyrandi hátíðarhöldum um helgina og er forseti Íslands í opinberri heimsókn í Eyjum á sama tíma. Einn af forsvarsmönnum hátíðarinnar segir ekkert henni líkt á landinu öllu.

Á meðan flestir landsmenn halda upp á þrettándann þann 6. janúar halda Eyjamenn fast í hefðirnar og skipuleggja hátíðarhöld þá helgi sem hentar í upphafi janúar. Öllu verður tjaldað til með helgarlangri dagskrá enda eru forsetahjónin þau Halla Tómasdóttir og Björn Skúlason í opinberri heimsókn í Eyjum þessa helgi og taka þátt í hátíðarhöldunum. Kristleifur Guðmundsson bryti á Herjólfi fær á ári hverju vikulangt frí vegna hátíðarinnar en hann er umsjónarmaður hinnar svokölluðu tröllasmiðju.

„Þetta er í rauninni svona vetrarhátíð þar sem við erum með alla helgina undirlagða í þrettándann, þess vegna færum við þetta yfir á helgi. Eins og ég segi þetta er sennilega stærsta fjölskyldu og skemmtihátíð á landinu, kannski fyrir utan Þjóðhátíð.“

Þannig verður haldið Grímuball í dag og þrettándaball í kvöld og hápunkturinn þegar fer fram flugeldasýning, blysför, álfabrenna og tröllaganga.

„Það eru eitthvað um hundrað tröll og þetta er búið að vera hefð frá því ég veit ekki hvenær. Þetta er búið að vera í milljón ár og maður hefur spjallað við fólk og þú þarft eiginlega bara að upplifa það til að finna hvað þetta er stórkostlegt.“

Kristleifur segir tröllin verða með hefðbundnu sniði í ár, líklegt þyki að mörgum muni þykja þau ógnvekjandi enda metnaður lagður í gerð þeirra.

„Og svo labba bæjarbúar í gegnum bæinn með tröllum og jólasveinum og Grýlu og Leppa og dansa í kringum varðeldinn eins og alvöru sértrúarsöfnuður. Svo er þetta bara líf og fjör og flugeldasýningar og flugeldaball um kvöldið, þrettándaball um kvöldið segi ég og eins og ég segi þetta er bara gleði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.