Skoðun

Manst þú eftir hverfinu þínu?

Pétur Marteinsson skrifar

Breiðholtið í kringum 1980 var algjör draumastaður til að búa á. Að minnsta kosti ef maður var sjö ára með grasgrænu á buxunum og mamma kallaði af svölunum í Suðurhólunum að það væri kominn kvöldmatur. Ég held það hafi verið gaman hjá fullorðna fólkinu líka.

Hverfin eru stór hluti af minningum okkar og daglegu lífi. Þótt ég búi núna í Vesturbænum og finnist það gott þá er ég alltaf Breiðhyltingur. Hversu oft hefur maður ekki lesið eða heyrt skáldin úr Vogahverfinu fjalla um uppeldisár sín þar, þótt flest þeirra búi annars staðar núna? Ég held að við gerum þetta öll.

En við þurfum að gera betur við hverfin okkar. Í of mörgum þeirra er gegnumakstur bíla sem keyra of hratt og víða vantar öflugri aðstöðu fyrir íþrótta- og tómstundaiðkun. Hverfisleikskólar anna ekki eftirspurn þannig að foreldrar keyra börnin borgarhluta á milli til að koma þeim í leikskóla.

Sterk hverfi eru lykill að góðri borg. Hverfisskólarnir með sínum foreldrafélögum og vinahópum, hverfiskaffihúsið, íþróttafélagið sem dregur okkur að vellinum og hverfissundlaugin þar sem spjallað er í heita pottinum. Þetta er nærsamfélagið okkar. Hverfin eru misrík af þessu, sum eiga ekki sundlaug, önnur ekki bókasafn og enn önnur ekkert kaffihús. En öll hverfi ættu að vera með þjónustu, menningu og tómstundir sem auðga líf íbúanna.

Ég held að stefna Samfylkingarinnar í þessum efnum sé heilt yfir rétt: Markmiðið er að byggja inn á við, auka þjónustuna inni í hverfunum og gera þau sjálfbærari. Allt saman gott.

En of oft eru borginni mislagðar hendur, borgarbúar upplifa „þéttingu byggðar” eins og hugmyndafræði sem komi að ofan og ógni lífsgæðum þeirra. Þegar markmiðið er þvert á móti að auka lífsgæðin, hafa bæði kaffibolla og sund í göngu- eða hjólafæri, auðvelda daglegt amstur, minnka skutl, stytta vegalengdir, gera börn og fullorðna öruggari

Það þarf þorp til að ala upp barn var sagt, hér eru það hverfin sem ala upp börnin. Samfylkingin hefur staðið fyrir jákvæðum breytingum á borgarumhverfinu en ef íbúar hverfanna telja stefnu eða aðgerðir ekki lengur þjóna þeim þarf að fara inn í hverfin á ný, setjast niður með íbúunum og ræða ólíkar leiðir til að bæta þau. Auðvelda framtakssömum íbúum að opna kaffihús eða veitingastaði en ekki kæfa það með reglufargani, styðja við framtak foreldra og starfsfólk skóla, leikskóla og íþróttafélaga.

Sumir aðrir flokkar eru í grundvallaratriðum a móti stefnunni sem hefur verið rekin. Þeir vilja auka bílaumferð, byggja mislæg gatnamót sem dæla umferð inn í hverfin, mótmæla lækkun hámarkshraða, útvatna Borgarlínu og dreifa byggðinni. Ég er sannfærður um að þetta sé röng nálgun sem mun gera hverfin okkar ósjálfbærari, óöruggari og minnka gleðina inni í þeim.

Þótt mér finnist borgarstefna síðustu ára heilt yfir rétt þurfum við að vera tilbúin að viðurkenna mistök þegar eitthvað heppnast ekki sem skyldi. Stundum hefur verið farið fram af meira kappi en forsjá og sums staðar byggt of mikið eða of hátt.

Við skulum ekki pakka í vörn heldur taka samtalið. Við sem sækjumst eftir því að vera fulltrúar borgarbúa þurfum að hafa borgarbúa með okkur í þessu. Íbúar hverfanna finna það á eigin skinni hvað er gott fyrir hverfin og við sem höfum leitt börnin okkar í skóla, farið í laugina, verið í foreldrafélögum og öskrað á vellinum - við vitum hvað vantar í hverfin og hvað myndi gera þau sterkari. Við þurfum að minna okkur aftur á það af hverju við viljum sjálfbær hverfi og hvernig við komumst þangað. Mig langar að vera fyrirliði í hópnum sem gerir það.

Höfundur er rekstrarstjóri og frambjóðandi í 1. sæti á lista Samfylkingar fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×