Enski boltinn

Stoltur af litla bróður eftir sögu­legt af­rek

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bræðurnir John og Wayne Rooney voru léttir eftir magnaðan sigur Macclesfield á Crystal Palace.
Bræðurnir John og Wayne Rooney voru léttir eftir magnaðan sigur Macclesfield á Crystal Palace. Martin Rickett/PA Images via Getty Images

Enskir fótboltasérfræðingar fara fögrum orðum um lið Macclesfield og magnað afrek liðsins er það sló ríkjandi bikarmeistara Crystal Palace úr keppni í FA-bikarnum. Einn sérfræðinganna tengist liðinu meira en aðrir.

Macclesfield er í sjöttu efstu deild og er lægst skrifaða liðið sem komst í 3. umferð bikarsins. Á því stigi keppninnar mæta úrvalsdeildarliðin til leiks og rómantík keppninnar í hámæli.

Iðulega verða óvænt úrslit en sjaldan á þeirri stærðargráðu að svo lágt skrifað lið sparki ríkjandi meisturum úr keppni. Enda ætlaði allt um koll að keyra á heimavelli Macclesfield eftir leik og tilfinningarnar miklar.

„Ég trúi þessu ekki. Við bjuggumst aldrei við því að vera í þessari stöðu. Við vorum hreint ótrúlegir frá fyrstu mínútu og mér fannst við verðskulda sigurinn. Ég gæti ekki verið stoltari af strákunum,“ sagði John Rooney, þjálfari Macclesfield, eftir leik.

Sá er 35 ára gamall og hætti fótboltaiðkun í sumar til að taka við liðinu. Hann hafði einnig byrjað meistaraflokksferil sinn þar eftir að hafa verið leystur undan samningi sem ungur maður hjá Everton.

Bróðir hans, Wayne Rooney, var á meðal áhorfenda á leik dagsins og starfaði í útsendingu breska ríkisútvarpsins, BBC, í kringum leikinn. Hann kvaðst stoltur af yngri bróður sínum.

„Það er ótrúlegt að sjá yngri bróður minn afreka þetta. Hann hefur ekki verið þjálfari lengi. Ég er mjög stoltur af honum,“ sagði Rooney eldri eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×