Lífið

„Minnstur aldurs­munur á okkur af öllum pörum“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ólöf og Magnús skemmtu sér konunglega í Miami ef marka má frásagnir Ólafar.
Ólöf og Magnús skemmtu sér konunglega í Miami ef marka má frásagnir Ólafar. Vísir/Vilhelm/Ívar

Fjölmiðlakonan Ólöf Skaftadóttir hafði það náðugt með Magnúsi sínum Ragnarssyni, formanni Tennissambands Íslands, á Trump National Doral í Miami í Flórída yfir hátíðarnar. Rúmlega 25 ára aldursmunurinn á þeim tveimur var ekkert í líkingu við aldursmun annarra para á hótelinu.

Ólöf greindi frá þessu í fyrsta þætti af fjórðu seríu hlaðvarpsins Komið gott, sem hún heldur úti með Kristínu Gunnarsdóttur, sem kom út 7. janúar síðastliðinn.

Stelpurnar fóru um víðan völl að vanda og rifjuðu meðal annars upp fjölsótta sýningu sína í Austurbæjarbíói í byrjun desember þar sem Magnús Ragnarsson steig einmitt villtan dans með hópi stjórnmálamanna.

Ásgeir Guðmundsson, vert á Röntgen og Austurbæ, fékk sérstakt hrós frá Kristínu í nýjasta þættinum í tengslum við viðburðinn: „Þetta er frekasti hommi veitingageirans og hann er svona borgarstjóri næturlífsins.“

„Ég lauk líka árinu með honum, eða svona nánast, í Dóminíska lýðveldinu. Við vorum þarna annar hvor hópur fólks og við vorum bæði í Dóminíska lýðveldinu og líka í nokkru sem við köllum Miami, Flórída. Og sko Geiri lét sig ekki vanta á Grindr öll jólin og það voru heimtur,“ sagði Ólöf um vin sinn og gott gengi hans á stefnumótaforritinu Grindr.

Ólöf segist hafa gist á golfhótelinu Trump National Doral í Miami ásamt Magnúsi Ragnarssyni. Parið hefur verið að slá sér upp síðustu misseri og mætti Ólöf með hann upp á arminn í brúðkaup Elsu Sólar Gunnarsdóttur og Hauks Karlssonar í Dómkirkjunni 25. október síðastliðinn.

Mikið um sjötuga herra með 25 ára dömum

„Það er ekki í lagi en það voru bara svo ógeðslega flottir tennisvellir þarna þannig við ákváðum að gista þar,“ sagði Ólöf um Trump National Dorsal sem auk glæsilegra tennisvalla býður gestum upp á glæsilegan golfvöll

„Við komum þarna og ég var með Magnúsi mínum og það var minnstur aldursmunur á okkur, það eru 25 ár á milli okkar sko. Minnstur aldursmunur á okkur af öllum pörum, þarna var mikið um sjötíu ára herra með 25 ára dömum. Það var allt undir í lýtalækningum og allt þetta,“ sagði Ólöf.

Ólöf líkti dvölinni við félagslega rannsókn á stöðunum tveimur, Miami í Flórída og Cabarete í Dóminíska lýðveldinu.

„Dóminíska lýðveldið þar sem við vorum, í Cabarete, þetta er höfuðborg vændis í karabíska hafinu. Trump National í Miami: ekki minna að gera hjá Geira á Grindr. Jafnvel aukin virkni á Trump National,“ sagði hún svo.

Ólöf var þó ekki bara með Magnúsi Ragnarssyni og Ásgeiri Guðmundssyni í fríinu heldur líka Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem hefur verið í leyfi frá Alþingi síðan síðasta sumar til að stunda meistarnám við Columbia í New York.

„Ég sá að þú sýndir öllum sem sjá vildu að bardagakindin sáluga lifir enn,“ sagði Kristín um Áslaugu.

„Heyrðu það er nú ein af uppgötvunum ársins 2025, hún lifir og það er ekkert að henni,“ svaraði Ólöf þá og vísaði þar hugsanlega til þess hve virk Áslaug er á samfélagsmiðlum og dugleg að minna á sig. Hún ræddi í kjölfarið aðeins um samveruna með Áslaugu þar ytra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.