Erlent

Hefja form­lega rann­sókn á kyn­ferðis­legum fölsunum Musk

Kjartan Kjartansson skrifar
Elon Musk hefur gert samfélagsmiðilinn X að einum stærsta vettvangi kynferðislegs efnis af börnum og konum gegn vilja þeirra á netinu á örskömmum tíma. Hann sakar gagnrýnendur þess um ritskoðunartilburði.
Elon Musk hefur gert samfélagsmiðilinn X að einum stærsta vettvangi kynferðislegs efnis af börnum og konum gegn vilja þeirra á netinu á örskömmum tíma. Hann sakar gagnrýnendur þess um ritskoðunartilburði. AP/Evan Vucci

Fjölmiðlanefnd Bretlands rannsakar nú samfélagsmiðilinn X og hvort hann hafi brotið lög vegna kynferðislegra gervigreindarmynda af börnum og konum. Elon Musk, eigandi X, hefur sakað bresk stjórnvöld um ritskoðunartilburði.

Framleiðsla Grok, gervigreindarspjallmennis X, á kynferðislegum myndum af konum og börnum að beiðni notenda miðilsins hefur vakið hneykslan og harða gagnrýni undanfarnar vikur.

X hefur ekki gripið til annarra aðgerða til þess að stemma stigu við myndaframleiðslunni en að hvetja notendur sínar til þess að nota Grok ekki á þennan hátt og síðan að leyfa aðeins áskrifendum sem greiða fyrir þjónustuna að framleiða þær. Ýmsar glufur eru þó sagðar á þeim takmörkunum.

Yfirvöld í bæði Malasíu og Indónesíu lokuðu tímabundið fyrir aðgang að Grok vegna kynferðislegu myndanna um helgina.

Nú segir Ofcom, fjölmiðlanefnd Bretlands, að stofnunin hafi hafið rannsókn á hvort að X hafi ekki orðið tímanlega við kröfum um að slíkt kynferðislegt efni eftir að fyrirtækinu var bent á það og ekki gripið til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að breskir notendur yrðu úsettir fyrir því.

Telji stofnunin að X hafi brotið bresk lög getur hún sektað fyrirtækið um tíu prósent af veltu á heimsvísu eða um átján milljónir punda að hámarki, jafnvirði rúmra þriggja milljarða íslenskra króna, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Verði X ekki við athugasemdum Ofcom getur stofnunin farið fram á dómsúrskurð til þess að láta netþjónustufyrirtæki loka fyrir aðgang að samfélagsmiðlinum í Bretlandi.

Fórnarlömbin sætti sig ekki við neina bið

Fulltrúar X hafa ekki svarað neinum fyrirspurnum fjölmiðla um framferði Grok. AP-fréttastofan segir að xAI, gervigreindararmur X, hafi svarað fyrirspurn hennar með sjálfvirkum pósti: „rótgrónu fjölmiðlarnir ljúga (e. legacy media lies)“

Musk hélt því fram í röð færslna á samfélagsmiðlinum um helgina að breska ríkisstjórnin væri einungis í leit að átyllu til þess að ritskoða hann.

„Þau vilja bara þagga niður í tjáningarfrelsinu,“ skrifaði Musk sem er sagður hafa þrýst á starfsmenn X á sínum tíma að sleppa beislinu af gervigreindinni.

Liz Kendall, ráðherra tæknimála í bresku ríkisstjórninni, segist fagna rannsókninni og hvatti Ofcom til þess að ljúka henni sem fyrst.

„Það er bráðnauðsynlegt að Ofcom ljúki þessari rannsókn fljótt vegna þess að almenningur, og fyrst og fremst fórnarlömbin, sætta sig ekki við neina bið,“ sagði Kendall í dag.

Á meðal þess sem notendur X hafa gert með Grok er að láta spjallmennið eiga við mynd af líki konu sem útsendarar bandarískrar innflytjendastofnunar skutu til bana í Minneapolis í síðustu viku og afklæða það. Sömu meðferð hefur lík unglingsstúlku sem lést í eldsvoða í skíðabæ í Sviss á dögunum og eldri kona sem lifði helförina af fengið á X.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×