Enski boltinn

Hvað sagði verðandi þjálfari United í einka­við­tali við Sýn Sport?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kjartan Atli Kjartansson spurði Michael Carrick spjörunum úr.
Kjartan Atli Kjartansson spurði Michael Carrick spjörunum úr. sýn sport

Fátt virðist koma í veg fyrir að Michael Carrick verði ráðinn þjálfari Manchester United út tímabilið. Fyrir rúmum tveimur mánuðum var Carrick í einkaviðtali við Sýn Sport þar sem hann svaraði spurningum um ferilinn, stöðu United, breytingar á fótboltanum og margt fleira.

Búist er við því að Carrick verði kynntur sem nýr þjálfari United á næstu klukkustundum. Hann mun stýra Rauðu djöflunum út tímabilið. Í síðustu viku var Ruben Amorim rekinn frá United og Darren Fletcher hefur stýrt liðinu í síðustu tveimur leikjum þess.

Carrick lék í tólf ár með United og vann allt sem hægt er að vinna með liðinu. Hann stýrði því í þremur leikjum eftir að Ole Gunnar Solskjær var látinn taka pokann sinn haustið 2021 og tók svo við Middlesbrough og var stjóri liðsins um þriggja ára skeið.

Carrick var sagt upp hjá Boro í sumar og hefur ekki þjálfað síðan. Fyrr í vetur, þegar átta umferðir voru búnar af ensku úrvalsdeildinni, settist hann niður með Kjartani Atla Kjartanssyni og þeir fóru um víðan völl í sínu spjalli.

Kjartan spurði Carrick meðal annars út í föstu leikatriðin og aukið vægi þeirra. Carrick segir að föstu leikatriðin og beinskeyttur leikstíll séu komin aftur í tísku eftir að mörg lið gerðu tilraunir til að spila „fallegan“ fótbolta.

Það sem er árangursríkt er vinsælt

„Nú er þetta að fara hringinn. Þetta snýst um hvað virkar, það er ekkert rétt eða rangt. Föstu leikatriðin eru að koma aftur inn í leikinn og eru orðin hálfgerð tískubylgja sem einkennir fótboltann í dag. Þetta ber árangur og það sem ber árangur er vinsælt,“ sagði Carrick og bætti við að Arsenal nýti sér föstu leikatriðin sérlega vel.

Carrick segir að lið Arsenal sé afar skilvirkt í föstum leikatriðum.getty/Mark Leech

„Áður var þetta komið á það stig að lið töldu sig of góð til að þurfa að láta hlutina líta illa út. Nú er þetta komið hringinn og fólk sættir sig við að þetta sé árangursríkt. Arsenal hefur tekið þessu opnum örmum og þetta hefur borið mikinn árangur. Þeir vinna mjög jafna leiki vegna þessa.“

Minni harka og minna frelsi á miðjunni

Carrick ræddi einnig um miðjumannsstöðuna sem hann spilaði og hvernig hún horfir við honum í dag.

„Ég held að þetta hafi breyst mikið. Það er enn harka og þú þarft að vera vel á þig kominn líkamlega, sterkur, hreyfanlegur og með yfirferð. Það er ekki jafn mikil harka í návígumþví áður fyrr leyfðu dómarar meira. Núna er nánast dæmt á alla smá snertingu. Þessi líkamlega harka er öðruvísi,“ sagði Carrick.

Carrick í bikarúrslitaleiknum 2016 þar sem Manchester United sigraði Crystal Palace, 2-1.getty/Shaun Botterill

„Núna er meiri hugsun, liðin eru skipulagðari og þú þarft að bera meiri ábyrgð til að spila þetta hlutverk. Við fengum meira frelsi til að spila okkar leik, jafnvel þegar ég spilaði hjá United. Sir Alex treysti okkur til að spila okkar leik innan heildarinnar. Núna eru svæðin minni og þú þarft að hugsa hraðar. Þetta hefur breyst mikið í gegnum árin og klárlega síðustu 3-4 ár.“

Horfir ekki á leiki ánægjunnar vegna

Carrick segist horfa öðruvísi á fótbolta eftir að hann lagði þjálfunina fyrir sig.

„Já, klárlega. Að sumu leyti er það sorglegt því þú horfir ekki á leikinn út frá hinni sönnu ánægju. Þú lítur á þetta sem vinnu, reynir að læra sem mest og horfa á leikinn frá annarri hlið. Það er erfitt að horfa á leikinn sem hlutlaus áhorfandi og njóta hans,“ sagði Carrick.

Traustið mikilvægast

Hann segir að traustið sem ríkti manna í milli í farsælustu Ferguson-liðunum hafi skipt sköpum.

„Við vorum ótrúlega þéttur hópur. Eins miklu máli og taktík og hæfileikar skipta er það viljinn, samstaðan og traustið sem er mikilvægast. Að treysta hvor öðrum á stórum augnablikum, þeim góðu og slæmu. Við stóðum alltaf við bakið á hvor öðrum og það sýnir sig þegar uppi er staðið og færir þér velgengni og stöðugleika yfir lengri tíma,“ sagði Carrick.

Leikmenn United fagna góðum sigri.getty/John Peters

Hann segir snúið að ná fram sama sterka liðsanda og einkenndi Ferguson-liðin hjá United og önnur farsæl lið, meðal annars vegna breytinga á samfélaginu.

Minni þolinmæði og meiri dómharka

„Það er örugglega alltaf að verða erfiðara. En United-liðið á þessum tíma var alveg út í ystu öfgar. Það er ekki oft í allri sögunni sem að svona sterkur hópur hefur náð saman, með stjóra sem var svona lengi, og leikmenn sem voru þarna á undan mér og léku allan sinn feril fyrir sama lið. En ég held að almennt séð sé þetta orðið meiri áskorun í dag,“ sagði Carrick.

Carrick stýrði Middlesbrough í 136 leikjum; 63 unnust, 49 töpuðust og 24 enduðu með jafntefli.getty/Stu Forster

„Þolinmæðin er minni í samfélaginu og dómharkan meiri í hverri viku. Ég var hluti af stórkostlegum liðum en við áttum samt kafla þar sem við spiluðum ekki vel og töpuðum leikjum. Svo unnum við kannski deildina og það halda allir að við höfum bara alltaf unnið. Það var ekki þannig hjá okkur. Það er orðin meiri áskorun núna að byggja til lengri tíma, bæði fyrir félög og leikmenn, en svona er heimurinn orðinn.“

Búist er við því að Carrick stýri sinni fyrstu æfingu hjá United á morgun. Fyrsti leikur liðsins undir hans stjórn verður svo gegn Manchester City á laugardaginn.

Viðtalið við Carrick má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×