Skoðun

Mót­mæli bænda í Evrópu halda á­fram – þegar við­varanir fá engin svör

Erna Bjarnadóttir skrifar

Þann 18. desember síðastliðinn komu bændur frá öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins saman í Brussel til fjölmennra mótmæla. Sá atburður var víða túlkaður sem hápunktur óánægju bænda víðs vegar um Evrópu sem hafði safnast upp um langa hríð. Nú liggur hins vegar fyrir að hér er að hefjast nýr kafli í mótun skilaboða bænda til forystu ESB framkvæmdastjórnar sem þingsins í Strassburg

Í fréttatilkynningu sem samtök evrópskra bænda og samvinnufélaga, Copa-Cogeca, gáfu út þann 13. Janúar 2025, kemur fram að mótmæli bænda muni halda áfram. Næstu mótmæli eru boðuð í Strassborg 20. janúar, í tengslum við störf Evrópuþingsins. Ástæðan er skýr: þau viðbrögð sem komið hafa frá stofnunum Evrópusambandsins við spurningum og kröfum bænda eru að þeirra mati ekki í samræmi við alvarleika stöðunnar.

Aðvörun en engin svör berast

Leiðtogar Copa-Cogeca komu saman í Brussel þann 12. Janúar til að meta stöðuna í kjölfar aukafundar landbúnaðarráðherra ESB og viðbragða framkvæmdastjórnarinnar þar sem Mercosur samningurinn var staðfestur með vissum mótvægisaðgerðum. Niðurstaðan fundarins var sú að aðgerðirnar væru ófullnægjandi og að óánægja bænda hefði fremur aukist, ekki síst vegna framvindu mála ekki síst í kjölfar staðfestingar Mercosur-samningsins, þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir bænda

Í tilkynningunni er lýst aðstæðum þar sem bændur búa við sífellt óstöðugri markaðsaðstæður, bæði í búfjárafuða- og kornframleiðslu. Á sama tíma standa þeir frammi fyrir vaxandi rekstrarkostnaði svo sem áburðarkostnaði og orkukostnaði, á meðan tekjur dragast saman. „Þessi þróun hefur leitt til svokallaðs price squeeze, það er þegar kostnaður hækkar hraðar en afurðaverð, þannig að rekstrarsvigrúm þrengist þrátt fyrir auknar kröfur.“ Að mati Copa-Cogeca er því sífellt mikilvægara að stjórnvöld taki skýrar og afgerandi ákvarðanir sem skapa fyrirsjáanleika og stöðugleika til lengri tíma. Því hafi verið ákveðið að skipuleggja frekari mótmæli.

Kröfur sem endurtaka sig – og af hverju

Á mótmælunum í Brussel 18. desember komu bændur úr öllum greinum og frá öllum löndum ESB saman og settu fram þrjár megin kröfur. Þær kröfur eru óbreyttar og mynda kjarnann í nýjum mótmælum í Strassborg:

Í fyrsta lagi er kallað eftir sterkri, sameiginlegri og vel fjármagnaðri sameiginlegri landbúnaðarstefnu (CAP) eftir 2027, sem studd sé af langtímafjárhagsramma sem tryggi samkeppnishæfni, vöxt og rekstrargrundvöll.

Í öðru lagi er krafist sanngjarnra og gagnsærra viðskipta, þar sem framleiðslustaðlar innan Evrópu séu raunverulega varðir og viðkvæmustu greinar landbúnaðarins njóti verndar, jafnframt því að staðinn sé vörður um samkeppnishæfni landbúnaðar innan ESB.

Í þriðja lagi er lögð áhersla á raunverulega einföldun regluverks, betri lagasetningu og aukið réttarfarslegt öryggi. Þar er með öðrum orðum lýst þeirri stöðu að regluumhverfið sjálft sé orðið hluti af vandanum, ekki aðeins tæki til lausnar.

Sameiginlegt með þessum kröfum er að þær snúast ekki um einstakar aðgerðir, heldur um rekstrarskilyrði landbúnaðar í heild sinni.

Mercosur samningurinn og kerfislægt misræmi

Í tilkynningu Copa-Cogeca er sérstaklega vísað til stöðunnar í kringum Mercosur-samningana. Þar telja bændur að ákvarðanir og pólitískur leikur innan ráðherraráðsins hafi aukið óánægju. Samningarnir varpi skýru ljósi á kerfislægt misræmi: auknar kröfur til evrópskra bænda á sama tíma og opnað er fyrir innflutning frá löndum þar sem framleiðsluskilyrði eru allt önnur.

Í slíkum aðstæðum verður spurningin sú sama og áður hefur verið lögð fram: hver á að bera kostnaðinn af þessum mun? Á bændum, sem starfa staðbundið og geta hvorki flutt starfsemi sína né velt áhættunni áfram, eða á þeim sem móta reglurnar?

Kröfunum er nú beint að Evrópuþinginu

Nýtt og athyglisvert í yfirlýsingu Copa-Cogeca er að samtökin beina máli sínu til Evrópuþingsins. Þar segir að þingið hafi raunveruleg úrræði til að bregðast við þessum áskorunum og að það sé nú komið að þingmönnum að sýna í verki þann stuðning sem þeir segjast veita landbúnaðarsamfélögum Evrópu og fæðuöryggi álfunnar.

Með þessu færist ábyrgðin skýrar yfir á kjörna fulltrúa. Mótmælin verða þannig ekki aðeins viðbrögð við stefnumótun, heldur enn frekar prófsteinn á pólitískt umboð og raunverulegan vilja til að bregðast við djúpstæðum vanda.

Þegar viðvörun breytist í viðvarandi mótmæli

Mótmælin í Evrópu má því lesa sem viðspyrnu gegn því þegar ábyrgð og kostnaður er látinn safnast sífellt upp hjá sömu hópunum, án þess að forsendur rekstrar og seiglu fylgi með. Þegar slíkar viðvaranir fá ekki skýr svör, breytast þær í hreyfingu sem lætur ekki staðar numið.

Höfundur er hagfræðingur.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×