Innlent

Finnur vill odd­vitasæti VG í Reykja­vík og bjóða fram með öðrum flokkum

Eiður Þór Árnason skrifar
Finnur Ricart Andrason brennur meðal annars fyrir umhverfismálum.
Finnur Ricart Andrason brennur meðal annars fyrir umhverfismálum. aðsend

Finnur Ricart Andrason býður sig fram í oddvitasæti Vinstri grænna í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Hann vonast til að flokkurinn verði hluti af sameiginlegu framboði á vinstri vængnum.

Líf Magneudóttir, sitjandi oddviti Vinstri grænna í borginni, sagði í síðustu viku að enn ætti eftir að ákveða hvort boðið verði fram undir formerkjum Vinstri grænna eða hvort flokkurinn gangi til liðs við sameiginlegt framboð vinstri flokka. Verði boðið fram undir formerkjum Vinstri grænna vilji hún áfram leiða lista flokksins í kosningunum í maí.

Vilji byggja mannvæna borg

Í framboðstilkynningu Finns kemur fram að hann hafi starfað á sviði umhverfismála undanfarin ár, meðal annars sem forseti Ungra umhverfissinna, sérfræðingur í umhverfis- og loftslagsmálum hjá Landgræðslunni, hjá Umhverfisstofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Finnur er á 24. aldursári. 

„Ég vil að við byggjum græna, mannvæna og örugga borg. Við þurfum að halda áfram að þétta, en það má ekki vera á kostnað grænna svæða, ljósvistar eða annarra nauðsynlegra gæða sem við þurfum á að halda til að líða vel. Samtímis þurfum við að fara í öflugt átak í vernd og endurheimt vistkerfa, sérstaklega votlendis,“ segir Finnur í yfirlýsingu.

Standa eigi vörð um heilsu íbúa

„Ég vil að við byggjum húsnæði fyrir fólk en ekki fjárfesta. Uppbygging þarf að vera á forsendum fólksins. Við þurfum húsnæði á viðráðanlegu verði sem tekur tillit til grænna svæða, almenningssamgangna og annarra aðstæðna á hverjum stað.“

Tryggja eigi öryggi gangandi og hjólandi borgarbúa með bættri lýsingu, rauðmáluðum hjólastígum, betri aðskilnaði hjólastíga frá bílaumferð og með lægri hámarkshraða á völdum svæðum. 

Finnur talar einnig fyrir réttlátu leikskólakerfi, öflugri og ódýrari almenningssamgöngum, auk þess að standa vörð um heilsu borgarbúa með því að sporna gegn loftmengun.

Hugnist ekki sundrung

„Ég trúi einnig á samtakamátt og samvinnu félagshyggjufólks og því hugnast mér að vinstri öflin í borginni taki sig saman um sameiginlegan lista. Kjósendur eiga skilið að fá einn skýran og sameinaðan valkost til vinstri. Slíkt samstarf yrði í þágu réttláts og græns samfélags,“ segir Finnur jafnframt í framboðstilkynningu sinni.

Hann bindi vonir við að flokkar á vinstri vængnum velji samstarf frekar en sundrungu. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Sósa­lista­flokkurinn ekki með í Vori til vinstri

Oddvitar og borgarfulltrúr á vinstri væng stjórnamál í Reykjavík funda enn um möguleikann á sameiginlegu framboði fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Niðurstaða ætti að liggja fyrir síðar í mánuðinum. Grasrót Vinstri grænna fundar og Pírata funda á næstu vikum. Sósíalistaflokkurinn tekur ekki þátt í framboðinu en oddviti flokksins segir það ábyrgðarhluta að bjóða fram sterkan valkost á vinstri væng.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×