Innlent

Taldi ekki sérstaka nauð­syn á að hneppa Helga Bjart í varð­hald

Árni Sæberg skrifar
Landsréttur kvað upp úrskurð að kvöldi miðvikudags.
Landsréttur kvað upp úrskurð að kvöldi miðvikudags. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómari taldi ekki sérstaka nauðsyn á því að Helgi Bjartur Þorvarðarson, sem ákærður er fyrir að nauðga tíu ára dreng í Hafnarfirði, yrði hnepptur í varðhald, þrátt fyrir að hann lægi undir sterkum grun. Hann er ákærður fyrir að nauðga drengnum með því að hafa við hann önnur kynferðismök en samræði og að reyna að hafa við hann samræði.

Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar, sem kveðinn var upp að kvöldi miðvikudags og birtur í dag. Með úrskurðinum sneri Landsréttur úrskurði Héraðsdóms Reykjaness og hneppti Helga Bjart í gæsluvarðhald til 6. febrúar á grundvelli almannahagsmuna.

Mikla athygli vakti þegar greint var frá því að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði ekki farið fram á gæsluvarðhald yfir Helga Bjarti, fyrir utan stutt varðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Ákærður með hraði

Héraðssaksóknari fékk málið á sitt borð þann 9. janúar og gaf út ákæru strax daginn eftir. Samhliða útgáfu ákæru fór Héraðssaksóknari fram á gæsluvarðhald yfir honum á grundvelli almannahagsmuna. Héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu og olli foreldrum drengsins miklum vonbrigðum.

12. janúar kærði Héraðssaksóknari úrskurð héraðsdóms til Landsréttar, sem úrskurðaði Helga Bjart í gæsluvarðhald á miðvikudagskvöld.

Í úrskurðinum er ákæru Héraðssaksóknara að finna og nánari lýsingu á málavöxtum en birst hefur í fjölmiðlum hingað til. Úrskurðinn má lesa hér. Í honum segir að í samræmi við réttarframkvæmd standi ríkir almannahagsmunir til þess að menn sem sterklega eru grunaðir um alvarleg brot gegn ungum börnum gangi ekki lausir. Því væru skilyrðum gæsluvarðhalds yfir Helga Bjarti fullnægt.

Engin sérstök ástæða

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness segir aftur á móti að að mati dómsins yrði, í ljósi atvika málsins, ekki séð að sérstök nauðsyn væri til þess, með tilliti til almannahagsmuna, að hneppa Helga Bjart í gæsluvarðhald.

„Í því efni nægir ekki að mati dómsins að vísa almennt til þess að það misbjóði réttlætiskennd almennings og væri til þess fallið að valda hneykslun og óróa í samfélaginu ef varnaraðili gangi laus áður en máli hans er lokið með dómi. Getur sú staðreynd að gefin hafi verið út ákæra á hendur varnaraðila engu breytt um það mat dómsins.“


Tengdar fréttir

Enn til skoðunar hvort úrskurðurinn verði kærður

Embætti héraðssaksóknara ákveður í dag hvort úrskurði héraðsdóms um að hafna gæsluvarðhaldskröfu yfir manni sem grunaður er um kynferðisbrot gegn barni í Hafnarfirði verði áfrýjað til Landsréttar eða ekki. 

„Martröð sem ég mun bera með mér alla ævi“

Helgi Bjartur Þorvarðarson, maðurinn sem ákærður er fyrir að hafa nauðgað tíu ára dreng í Hafnarfirði um miðjan september síðastliðinn, segist ekki sekur um þau brot sem hann er sakaður um. Hann segist hafa fallið á bindindi sínu umrætt kvöld, verið í „blackout-ástandi“ en að hann hafi það ekki í sér að vera fær um að gera það sem hann er sakaður um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×