Skoðun

Stóra myndin í leik­skóla­málum

Skúli Helgason skrifar

Leikskólinn er í senn mikilvæg menntastofnun og gríðarlega þýðingarmikið jöfnunartæki í samfélaginu. Yfir 90% ánægja mælist meðal foreldra á starfi leikskólanna í borginni og langflest börn fá pláss í sínu nærumhverfi. Uppbyggingaráætlun borgarinnar gengur vel, 7 nýir leikskólar hafa opnað og 1200 ný leikskólapláss orðið til undir okkar forystu. Við leggjum nú lokahönd á nýjar tillögur í borginni til að bæta mönnunarstöðu, vinnuumhverfi og minnka álag á barnafjölskyldur og starfsfólk leikskóla.

Það markar jákvæð tímamót að nú stefnir í löngu tímabært samstarf ríkis, borgarinnar og annarra sveitarfélaga um verkaskiptingu og sameiginlega fjármögnun á málaflokknum.

Lögfesting leikskólastigsins

Aðgerðahópur á vegum forsætisráðuneytisins, með aðkomu fulltrúa fjögurra ráðuneyta, Sambands sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og aðila vinnumarkaðarins kynnti fyrir áramót tillögur sínar um aðgerðir til að brúa umönnunarbilið. Lykiltillaga hópsins er að lögfest verði ábyrgð sveitarfélaga á rekstri leikskóla en gert verði samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um aðkomu ríkisins að uppbyggingu, kostnaðarskiptingu og verkaskiptingu á því stóra verkefni að brúa bilið. Lagt er til að forsætisráðuneytið leiði vinnu við gerð samkomulagsins, viðræðunefnd hefji störf núna í byrjun árs og skili niðurstöðum í maí, með það að markmiði að frumvarp um lögfestingu leikskólastigsins verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en í haust.

Ríkið axlar ábyrgð

Þessi tillaga markar þáttaskil. Með henni axlar ríkið í fyrsta sinn ábyrgð á því að hafa með lagasetningum átt stóran þátt í að skapa þann alvarlega mönnunarvanda sem einkennt hefur leikskólastigið í landinu.

Þar munar miklu um lengingu kennaranáms í 5 ár sem samþykkt var 2008 en sú ákvörðun Alþingis hafði mjög afdrifaríkar afleiðingar á fjölda útskrifaðra kennara. Það kemur skýrt fram í skýrslu aðgerðahópsins að á árunum 2005–2011 luku að meðaltali 112 einstaklingar leikskólakennaraprófi árlega en eftir að kennaranámið var lengt í 5 ár útskrifuðust aðeins 28 að meðaltali árlega fram til 2022. Þetta er 75% fækkun útskrifaðra á hverju ári í heilan áratug eða fækkun um 900 leikskólakennara á tímabilinu.

Ákvarðanir Alþingis reyndust gríðarleg blóðtaka fyrir faglegt leikskólastarf í landinu og til að bæta gráu ofan á svart samþykkti Alþingi lög um eitt leyfisbréf árið 2019 sem hjó í sama knérunn því í kjölfar hennar fækkaði um 150 leikskólakennara sem notuðu tækifærið og fluttu sig yfir í störf grunnskólakennara. Það er þó jákvætt að síðastliðin fjögur ár hefur útskrifuðum leikskólakennurum fjölgað á ný og hafa um 77 útskrifast á ári að meðaltali frá 2021.

Sögulegt samstarf í burðarliðnum

Ákvarðanir Alþingis vega þungt þegar horft er á djúpan mönnunarvanda leikskólanna undanfarin 15 ár. Það er því í hæsta máta eðlilegt og sanngjarnt að ríkið komi nú með beinan stuðning við sveitarfélögin í því uppbyggingarverkefni sem framundan er. Þar er lykilatriði að fjölga kennaramenntuðu starfsfólki og öðru starfsfólki með uppeldismenntun eins og lagt er til af fyrrnefndum aðgerðahópi.

Hvetjum fólk í kennaranám!

Ég legg áherslu á að þar er mikilvægt að beita jákvæðum aðgerðum til að hvetja ungt fólk í kennaranám, t.d. með námsstyrkjum og breytingu námslána í styrki og síðast en ekki síst að halda hátt á lofti mikilvægi kennarastarfsins fyrir gott samfélag sem byggir á jöfnuði. Samhliða þarf að efla verulega íslenskukennslu fyrir starfsfólk með annað móðurmál en íslensku en líka þá umsækjendur um störf, sem hafa litla íslenskukunnáttu en metnað og áhuga á að starfa í leikskóla.

Í næstu grein mun ég fjalla um aðgerðir borgarinnar á liðnum árum og nýjar leiðir til að bæta stöðuna í málaflokknum.

Höfundur er borgarfulltrúi og frambjóðandi í 2. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík laugardaginn 24. janúar.




Skoðun

Sjá meira


×