Skoðun

Börnin í Laugar­dal eiga betra skilið

Róbert Ragnarsson skrifar

Börn og foreldrar í Laugardalnum eru látin bíða. Bíða eftir æfingum sem falla niður. Bíða eftir íþrótta- og félagsaðstöðu sem stenst samanburð við önnur hverfi.

Foreldrar bíða eftir því að loforð verði efnd.

Þjálfarar bíða eftir góðum og öruggum starfsskilyrðum.

Þolinmæðin er á þrotum eins og kom skýrt fram á fjölmennum íbúafundi Ármenninga.

Laugardalurinn er næst fjölmennasta hverfi Reykjavíkur og það sem vex hvað hraðast. Þéttingarreitir í hverfinu og næsta nágrenni hafa fært borginni nýja íbúa, aukið mannlíf og skapað betri forsendur fyrir verslun og þjónustu í hverfinu.

En innviðirnir hafa ekki fylgt eftir.

Borgin hefur ekki staðið við loforð um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Laugardal, byggingu varanlegrar tengingar Vogabyggðar við Vogahverfið eða klárað viðhald á leikskólanum Laugasól.

Á sama tíma hafa þéttingarreitir við Kirkjusand, í Vogabyggð og á Orkureitnum skilað borginni miklum tekjum af byggingarrétti, gatnagerðargjöldum, lóðarleigu og skatttekjum nýrra íbúa..

Þetta eru peningar sem eiga að skila sér aftur í hverfið. Í íþróttamannvirki, skólahúsnæði og öruggt umhverfi fyrir börn. Það hefur ekki gerst.

Ástæðan er einföld. Tekjur af þéttingarreitum runnu inn í óskilvirkan rekstur borgarinnar í stað þess að fara í nauðsynlegar fjárfestingar í Laugardal.

Í mínu gamla félagi, Ármanni, hefur iðkendum fjölgað mikið. Körfuknattleiksdeildin er orðin sú fjölmennasta í Reykjavík. Samt bíða Ármenningar enn eftir uppbyggingu sem lofað hefur verið á íbúafundum og í fjölmiðlum árum saman. Oftar en ekki er því fleygt fram að Þjóðarhöllin sé á næsta leyti. Hún hefur einfaldlega ekkert með íþróttastarf barna að gera.

Þau geta ekki sætt sig við enn eitt kjörtímabil af óefndum loforðum.

Þetta þarf ekki að vera svona.

Sem leiðtogi Viðreisnar í Reykjavík mun ég laga reksturinn og tryggja að tekjur fari í fjárfestingar í íþróttum, skólum og innviðum. Ég hef gert það áður bæði sem bæjarstjóri og ráðgjafi.

Íbúar í Laugardal eiga betra skilið.

Börnin eiga betra skilið

Höfundur er stjórnmálafræðingur Msc og frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×