Erlent

Ó­væntur blaða­manna­fundur: Las „afrekabókina“ og sýndi myndir af glæpa­mönnum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Trump mætti óvænt á blaðamannafund.
Trump mætti óvænt á blaðamannafund. AP

Bandaríkjaforseti mætti óvænt á blaðamannafund í Hvíta húsinu, einu ári eftir að hann tók við embætti. Hann fór yfir störf Innflytjenda- og tollaeftirlits Bandaríkjanna (ICE) og las upp úr „afrekabók“ sinni.

Donald Trump Bandaríkjaforseti mætti á blaðamannafund í Hvíta húsinu sem Karoline Leavitt, samskiptastjóri Hvíta hússins, heldur alla jafna. Leavitt sagði í færslu á samfélagsmiðlum að „einstakur gestur“ myndi mæta á blaðamannafundinn.

Fundurinn, sem hófst tæpum klukkutíma of seint, var að mestu leyti um afrek forsetans á þessu fyrsta ári af öðru kjörtímabili hans.

Í byrjun fundarins gaf Trump sér góðan tíma í að sýna myndir af fólki sem á að hafa verið handtekið af ICE í Minnesota-fylki. Undir ljósmyndunum stóð hvaða glæpi fólkið á myndum átti að hafa framið.

Trump með eina slíka mynd í hendi.AP

„Þau eru að handtaka morðingja og fíkniefnasala og helling af vondu fólki, og þetta eru þau sem hafa nýlega verið handtekin,“ sagði forsetinn.

„Þetta eru allt glæpamenn, ólöglegir innflytjendur, fíkniefnasalar, andlega veikir, þeir eru morðingjar en þeir eru andlega veikir.“

Hann sagði að alls hefðu tíu þúsund hefðu verið handteknir af ICE í Minnesota-fylki og að allir væru glæpamenn.

Minntist á morðið

Mikil óánægjualda hefur riðið yfir Minnesota-fylki eftir að fulltrúi ICE skaut hina 37 ára gömlu Renee Good til bana. Myndband af atvikinu var birt á samfélagsmiðlum. Trump vísaði í morðið á blaðamannafundinum og viðurkenndi að stundum gerðu fulltrúar ICE mistök.

„Þetta eru erfiðar aðstæður,“ sagði Trump, sem fullyrti einnig að yfir sextíu prósent fulltrúa ICE væru af spænskum ættum.

Það sem Trump talaði þó mest um varðandi morðið var að foreldrar Good, sér í lagi faðir hennar, hefðu verið mikill stuðningsmaður hans.

„Ég vona að hann sé það enn,“ sagði forsetinn.

Afrekabókin lenti á gólfinu

Trump mætti einnig með blaðabunka sem á stóð stórum stöfum: Afrek. Hann tók til að lesa upp hluti sem hann hefði afrekað, og sparaði ekki skotin á Joe Biden, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

„Við erum með afrekabók sem við bjuggum til, þetta er blaðsíða eftir blaðsíðu. Ég gæti staðið hér og lesið í viku og ég væri ekki búinn.“

Meðal þeirra fjölda afreka sem forsetinn nefndi á fundinum var að ólöglegum flutningum yfir landamæri Bandaríkjanna hefði fækkað um 99,999 prósent. Í átta mánuði hefði enginn komið ólöglega til Bandaríkjanna. 

Blaðabunkarnir tveir sem forsetinn henti á gólfið þegar hann hafði lokið við að kynna þá.AP

„Hellingur af fólki kemur löglega til landsins, það þarf að sanna að það elski landið og að það þurfi ekki á velferð að halda.“

Einnig hefði hagkerfi Bandaríkjanna aldrei verið betra, verðbólgan fari hjaðnandi og fjöldi bílaverksmiðja væru að rísa í landinu vegna tolla hans.

„Þú munt komast að því“

Trump talaði í yfir klukkustund án þess að svara spurningum viðstaddra blaðamanna. Þegar blaðamennirnir fengu tækifæri til að spyrja sneru þó nokkrar spurningar að Grænlandi. 

„Þú munt komast að því,“ sagði hann aðspurður hversu langt hann væri tilbúinn að ganga til að ná stjórn á Grænlandi.

Trump greip einnig tækifærið og talaði um Atlantshafsbandalagið. Hann telur sig hafa gert of mikið fyrir bandalagið og eytt of miklum pening í það. Þá segir hann að enginn hafi gert jafn mikið fyrir bandalagið og hann sjálfur.

Hann segist þó þurfa á Atlantshafsbandalaginu að halda upp á öryggi Bandaríkjanna. Trump var einnig spurður hvort að hann vildi vera áfram í bandalaginu.

„Ég hef átt svo gott samband við bandalagið, ég hef gert það svo miklu betra, miklu strekara. Ég er ekki sammála öllu því sem það hefur gert en það var gert áður en ég kom,“ svaraði forsetinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×