Innlent

Mið­flokkurinn nálgast Sam­fylkingu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins. Vísir/Lýður Valberg

Miðflokkurinn mælist með 22,2 prósent í nýrri könnun Maskínu og eykst fylgið um þrjú prósent milli mánaða. Samfylkingin mælist með 27 prósent og því munar einungis tæpum fimm prósentum á flokkunum. Viðreisn mælist stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. 

Fylgisaukning Miðflokksins frá kosningum í nóvember 2024 nemur tíu prósentum. Fylgi Samfylkingar hefur aukist um 6,2 prósent frá kosningum en í skoðanakönnunum eftir kosningar hefur hann mest mælst með 31,9 prósent. 

Viðreisn mælist með 14,1 prósent fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn 13,5 prósent. Fylgi Viðreisnar eykst lítillega milli mánaða en Sjálfstæðismenn missa 1,6 prósentustig. 

Framsókn mælist með 7,1 prósent, svipað og í kosningum. Fylgistap Flokks fólksins heldur hins vegar áfram og mælist flokkurinn út af þingi annan mánuðinn í röð. Fylgið er í 4,3 prósentum. Píratar og Sósíalistar mælast með 4,1 prósent fylgi og Vinstri græn með 3,7 prósent. 

Guðmundur Hálfdánarson, sérfræðingur í sögu þjóðernisstefnu, segir áframhaldandi fylgisaukningu flokksins ekki koma á óvart.

„Miðflokkurinn hefur undir svona kannski forystu Snorra Mássonar tekið upp svipuð málefni og hafa verið áberandi flokka til dæmis í Bandaríkjunum. Einnig hjá flokkum í Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi og austurhluta álfunnar þar sem áhersla er lögð á innflytjendamál og þessa ógn sem sumir telja stafa af innflytjendum við þjóðerni Íslendinga. Verið sé að skipta þjóðinni út,“ segir Guðmundur. 

Guðmundur Hálfdánarson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Kristinn Ingvarsson

Staða Sjálfstæðisflokksins sé mjög alvarleg. Miðflokkurinn sé að sækja fylgi þaðan og frá Flokki fólksins.

„Ég á ekki von á því að hann fái allt þetta fylgi í kosningum. Það áhugaverða að fylgjast með er hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að bregðast við. Tekur hann upp málefni og málflutning Miðflokksins og reynir að ná vopnum sínum þannig eða reynir hann að vera einhverskonar annar valkostur á hægri vængnum sem getur á einhvern hátt stöðvað þessa fylgisaukningu Miðflokksins,“ segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×