Skoðun

Af­nám laga­skyldu til jafn­launa­vottunar er gott - en gull­húðað

Ólafur Stephensen skrifar

Félag atvinnurekenda fagnar eindregið frumvarpi Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra um að fella skyldu til jafnlaunavottunar úr lögum og taka þess í stað upp einfaldara kerfi. Félagið telur þó að ráðherrann hefði getað gert betur og gengið lengra.

FA hefur allt frá upphafi verið í hópi þeirra sem hafa gagnrýnt að jafnlaunavottunin væri lagaskylda, þótt hún hafi vissulega gert sitt gagn. Það blasir við að stærðarmörk fyrirtækja, sem ber að undirgangast jafnlaunavottun, voru sett alltof lágt og minni fyrirtæki hafa þurft að leggja út í gífurlegan kostnað og vinnu við vottunarferlið. Skemmst er að minnast þess að Þorsteinn Víglundsson, sem lagði fram frumvarpið um jafnlaunavottun á sínum tíma sem félagsmálaráðherra, viðurkenndi í viðtali við Morgunblaðið í vikunni að gerð hafi verið mistök og gengið of langt; vottunin hafi verið of íþyngjandi fyrir minni fyrirtæki. Þess ber að geta að úttektir á kynbundum launamun benda ekki til að jafnlaunavottun hafi nein bein áhrif á hann; það er ekki marktækt minni launamunur í fyrirtækjum sem hafa fengið jafnlaunavottun en í þeim sem ekki fengu hana.

Í núverandi löggjöf er gert ráð fyrir að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri beri skyldu til að undirgangast jafnlaunavottun eða svokallaða jafnlaunastaðfestingu. Í frumvarpi ráðherra er gert ráð fyrir að skyldan miðist við 50 starfsmenn og ferlið sé líkara því sem kallast jafnlaunastaðfesting og stendur í dag fyrirtækjum með 25-50 starfsmenn til boða. Þótt FA telji þetta hvort tveggja til bóta, staldrar félagið við 50 manna stærðarmörkin.

Gullhúðun skerðir samkeppnishæfni

Í umsögn sinni til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis bendir FA á að í greinargerð frumvarpsins komi fram að það sé að miklu leyti í samræmi við kröfur launagegnsæistilskipunar Evrópusambandsins nr. 2023/970, en vænta má þess að tilskipunin verði tekin upp í EES-samninginn og innleidd hér á landi innan tíðar. Aðeins er lauslega fjallað um tilskipunina í greinargerðinni. FA telur mikilvægt að halda því til haga að í tilskipuninni er miðað við að fyrirtæki með 100 starfsmenn eða fleiri séu skyldug að veita launaupplýsingar.

FA ítrekar við þingnefndina það sem félagið hefur í tvígang bent dómsmálaráðuneytinu á í vinnu þess við samningu frumvarpsins, að með því að setja viðmiðið um skyldu til skýrsluskila lægra en í tilskipuninni, þ.e. við fyrirtæki og stofnanir með 50 starfsmenn og fleiri, í stað þess að miða við 100 starfsmenn, er verið að „gullhúða“ tilskipunina. Með því er sköpuð sú hætta að íslenzk fyrirtæki búi að þessu leyti við strangari kröfur og meira íþyngjandi regluverk en fyrirtæki af sömu stærð í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Slík gullhúðun skerðir samkeppnishæfni íslenzks atvinnulífs.

Í skýrslu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, sem vísað er til í greinargerð frumvarpsins, er lögð áhersla á að fjarlægja gullhúðun úr íslenzku regluverki. „Meginregla verði að ekki verði gengið lengra en lágmarkskröfur viðkomandi Evrópugerðar kveða á um nema í undantekningartilvikum, t.d. ef það væri í þágu íslenskra hagsmuna og drægi úr reglubyrði atvinnulífsins,“ segir í skýrslu hópsins. Að mati FA er það frávik frá ákvæðum tilskipunarinnar, sem frumvarpið felur í sér, augljóslega hvorki í þágu samkeppnishæfni íslenzks atvinnulífs né til þess fallið að draga úr reglubyrði atvinnulífsins miðað við ákvæði Evrópureglnanna.

Vinnulagið ekki í samræmi við aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða

Ekki er í greinargerð frumvarpsins rökstutt með nokkrum hætti af hverju ætti að miða við 50 starfsmenn fremur en 100 eins og gert er í tilskipuninni. Þetta er ekki í samræmi við tillögur starfshóps utanríkisráðherra um aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða, sem kom út í maí 2024. Þar er lagt til að í greinargerð lagafrumvarpa sé greint með skýrum og aðgengilegum hætti frá því hvort ætlunin sé að beita gullhúðun Evrópureglna. Sömuleiðis lagði hópurinn til að rökstyðja skyldi sérstaklega frávik frá EES-reglum og leggja mat á áhrif þess að víkja frá reglunum. Þótt hér sé ekki með beinum hætti um innleiðingarfrumvarp að ræða, hefði að mati FA verið eðlilegt að fara eftir þessu vinnulagi og er miður að það hafi ekki verið gert.

Hærri stærðarmörk þýða minni ríkisútgjöld

FA leggur eindregið til að miðað verði við 100 starfsmanna markið, í stað 50, og bendir á að með því að fara þá leið ætti líka umtalsverður rekstrarkostnaður að sparast hjá ríkinu, þar sem Jafnréttisstofa þyrfti þá væntanlega færra starfsfólk til að taka við og yfirfara skýrslur um launaupplýsingar. Eins og félagið hefur ítrekað vakið athygli stjórnvalda á (og hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar vitnaði sérstaklega til), þýðir þyngra eftirlit með fyrirtækjum líka fleiri ríkisstarfsmenn og dýrari stjórnsýslu.

Ef dómsmálaráðherrann og félagar hennar í stjórnarmeirihlutanum meina eitthvað með tali sínu um að þau vilji einfalda regluverk og afnema gullhúðun, þ.e. ekki ganga lengra en gert er í EES-reglum, gera þau breytingar á frumvarpinu og miða stærðarmörkin við 100 manns.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.




Skoðun

Sjá meira


×