Skoðun

Það er hægt að snúa við verri stöðu en er í Reykja­vík í dag

Róbert Ragnarsson skrifar

Það er hægt að ná árangri í fjármálum borgarinnar, bæta þjónustuna og lækka skatta. Ég veit það, því ég hef leitt hóp sem hefur gert það.

Til að ná árangri þurfa þrír þættir að fara saman: þekking á rekstri, hæfni til að leiða fólk saman og seigla til að fylgja aðgerðum eftir. Á þessum eiginleikum vil ég snúa við stöðu borgarinnar með sambærilegum hætti og ég hef áður gert.

Bág staða Reykjavíkur svipar til Grindavíkur árið 2010

Ég tók við sem bæjarstjóri Grindavíkurbæjar árið 2010. Kjörtímabilið á undan einkenndist af meirihlutaslitum og tíðum bæjarstjóraskiptum. Rekstur bæjarsjóðs var ekki sjálfbær og traust til bæjarstjórnar var lítið. Staðan var ekki ósvipuð þeirri sem Reykjavík stendur frammi fyrir í dag.

Í bæjarstjórn kom öflugur hópur fólks með raunverulegan vilja til breytinga. Við lögðum strax mikla vinnu í að ná samstöðu um sameiginlega sýn og skýr markmið fyrir Grindavíkurbæ. Markið var sett hátt. Grindavíkurbær yrði fjárhagslega sterkasta sveitarfélag landsins.

Það markmið náðist. Fyrir árangurinn hlaut Grindavíkurbær viðurkenningar Arion banka og Vísbendingar árin 2013 og 2014.

Lægri skuldir og skattar með markvissum aðgerðum

Lykillinn var skýr aðgerðaáætlun. Sett var heildstæð fjármálastefna með markmiðum fyrir hvert fjárhagsár og hvern málaflokk. Bæjarstjórn samþykkti eigin fjármálareglur árið 2010, löngu áður en Reykjavíkurborg gerði slíkt hið sama árið 2022. Gripið var til fjölbreyttra hagræðingaraðgerða, án uppsagna vegna erfðis atvinnuástands eftir Hrunið. Skólar voru sameinaðir, samrekstur aukinn, verkefnum útvistað og stjórnkerfið einfaldað með fækkun nefnda og stjórnenda.

Áhersla var lögð á að verja grunnþjónustuna. Hagræðing átti sér stað í umsýslu, stoðþjónustu og stjórnun, en þjónusta við íbúa var óskert.

Ég leiddi kraftmikinn hóp kjörinna fulltrúa með það skýra markmið að fjölga íbúum og styðja við atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Við byggðum upp virkt samtal við fyrirtæki í bænum og studdum breytingar á hafnarsvæðinu og í Svartsengi til að skapa tækifæri til vaxtar í orkuvinnslu, ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Þessar aðgerðir skiluðu umtalsverðum tekjum.

Eignir utan grunnþjónustu voru seldar, þrátt fyrir mótmæli, meðal annars Félagsheimilið Festi. Í kjölfarið opnaði þar hótel og bæjarbúar fengu betri samkomusal í íþróttamiðstöðinni.

Árangurinn lét ekki á sér standa. Rekstrarafgangur náðist strax árið 2012. Útsvar var lækkað 2013 og aftur 2014, niður fyrir 14%, en aðeins 9 sveitarfélög lögðu á lægra útsvar.

Með ábyrgum rekstri var hægt að lækka skatta og styrkja þjónustu. Það er nákvæmlega þetta sem þarf að leggja ofur áherslu á fyrir Reykvíkinga í kjölfar næstu kosninga.

Ég hef gert þetta áður, og ætla að gera það aftur í Reykjavík.

Höfundur er stjórnmálafræðingur Msc. og frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×