Skoðun

Verð­bólga á Ís­landi er ekki slys – hún er af­leiðing á­kvarðana

Sigurður Sigurðsson skrifar

Á Íslandi er verðbólga oft rædd eins og náttúruhamfarir: eitthvað sem „gerist“, eitthvað sem enginn ræður við né ber ábyrgð á. Í framhaldinu eru stýrivextirnir hækkaðir, aftur og aftur, eins og það sé eina hugsanlega svarið. En verðbólga á Íslandi er ekki slys. Hún er afleiðing ákvarðana – eða jafnvel skorts á þeim.

Þegar stjórnvöld skapa kerfi þar sem húsnæðiskostnaður hækkar sjálfkrafa, skuldir eru verðtryggðar og ríkisfjármál vinna gegn peningastefnunni, þá er verðbólgan ekki óvænt. Hún er innbyggð í stjórnkerfið okkar og í slíku umhverfi eru háir stýrivextir ekki lausn heldur afleiðing, einskonar neyðarviðbragð við veikar stjórnvaldsákvarðanir ríkisins.

Húsnæðið er fíllinn í herberginu

Stærsti einstaki drifkraftur verðbólgunnar hérlendis er húsnæðiskostnaður. Leiga hækkar, fasteignaverð hækkar og skuldir heimila eru verðtryggðar nánast sjálfkrafa. Seðlabankinn bregst við með stýrivaxtahækkunum sem hækka húsnæðiskostnað enn frekar. Þetta er vítahringur, ekki stefna.

Á meðan framboð íbúða er skert, skipulagsferlar taka langan tíma og Íslenskar reglugerðir gera meiri kröfur en EES samningurinn krefst, er verðbólga einfaldlega forrituð inn í hagkerfið. Að ætla að leysa slíkt vandamál fyrst og fremst með vöxtum er eins og að ausa bát sem lekur og bannað að stoppa í gatið.

STAÐREYNDIRNAR Í STUTTU MÁLI

  • Húsnæðiskostnaður vegur um 25–30% í vísitölu neysluverðs á Íslandi. 
  • Stýrivextir hafa hækkað um rúmlega 8 prósentustig á innan við þremur árum.
  • Verðtryggð lán hækka sjálfkrafa þegar verðbólga eykst – skuldir vaxa samhliða „aðgerðum“ gegn henni.

Ríkið kyndir verðbólgubálið en Seðlabankinn slekkur

Annað lykilvandamál er að ríkisvaldið og Seðlabankinn vinna ekki saman. Á sama tíma og stýrivextir eru hækkaðir til að kæla eftirspurn, eykur ríkið útgjöld, viðheldur spennu á vinnumarkaði og sendir út þau skilaboð að aðhald sé að vænta fljótlega - sé frestanlegt - sem Seðlabankinn skilur sem áframhaldandi óvissu og heldur vöxtum áfram háum.

Þetta neyðir því Seðlabankann til að halda vöxtum háum lengur — ekki vegna þess að það virki sérstaklega vel, heldur vegna þess að ekkert annað er trúverðugt. Háir vextir verða þannig verðmiði á pólitískar ákvarðanir, ekki hagfræðilegt jafnvægi.

Verðtryggingin: sjálfvirk verðbólguvél

Engin þjóð sem tekur verðbólgu alvarlega myndi hanna lánakerfi þar sem skuldir heimilanna hækka sjálfkrafa þegar verðbólga eykst. Samt er það nákvæmlega það sem við höfum gert. Verðtrygging magnar verðbólguvæntingar, hækkar greiðslubyrði og tryggir að verðbólga festist í sessi. Að berjast gegn verðbólgu án þess að afvirkja verðtryggingu er eins og að slökkva eld á bensínstöð meðan bensíndælan gengur á fullu á eldinn.

Laun eru ekki aðalvandinn

Launafólk er reglulega sett í skotlínu vaxtaumræðunnar þegar staðreyndin er sú að háir stýrivextir hafa ekki stöðvað verðbólguna. Þeir hafa fyrst og fremst hækkað afborganir lána og húsaleigu og aukið óvissu heimilanna. Það dregur úr trausti, hækkar innheimtukröfur á heimilin og styrkir þann launa og verðbólguspíral sem allir segjast vilja forðast. Þessi barátta vinnst ekki með stríði gegn heimilunum. Hún vinnst með því að standa með heimilunum.

Hvað þyrfti raunverulega að gera?

Ef verðbólga væri tekin föstum tökum, í stað þess að bregðast endalaust við henni, væri farið í rót vandans sem í grófum dráttum skiptist í eftirfarandi þætti:

  • Tafarlaust raunhæft og faglegt átak í auknu húsnæðisframboði og heimila húsbyggingar sem fólk hefur efni á að kaupa - hætta að byggja glæsihallir fyrir almenning - byggja bara venjuleg hús sem uppfylla ákvæði Mannvirkjalaga og byggingareglugerðar. Endurreisa Rannsóknarstofnun byggariðnaðarins.
  • Raunverulegt aðhald í ríkisfjármálum gegn verðbólgunni
  • Afnám eða skerðing verðtryggingar á nýjum neytendalánum
  • Þríhliða sátt um launin, verðlagið og skattakerfið
  • Stöðugleiki og fullkomið raunsæi í peningastefnu

Niðurstaðan

Verðbólgan á Íslandi eru ekki óviðráðanlegar náttúruhamfarir. Hún er afleiðing ákvarðana og einnig skorts á þeim. Háir stýrivextir eru ekki merki um festu eða ábyrgð, heldur um að kerfið hafi brugðist og sé rekið í neyðarham.

Verðbólga lækkar ekki af því að heimilin blæða meira. Hún lækkar þegar stjórnvöld axla ábyrgð og hætta að láta óprúttna aðila mjólka ríkissjóð.

Höfundur er áhugamaður um velferð almennings.




Skoðun

Sjá meira


×