Viðskipti erlent

Lækkun á Wall Street eins og spáð hafði verið

Verð á hlutabréfum lækkaði við opnun markaða í Bandaríkjunum í dag eins og búist hafði verið við. Matsfyrirtækið Standard & Poors lækkaði lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna í fyrsta sinn í sögunni á föstudaginn eftir að markaðir lokuðu og spár um lækkun gengu eftir. Dow Jones vísitalan lækkaði um tæp tvö prósent í fyrstu viðskiptum dagsins klukkan hálf tvö að íslenskum tíma og Nasdaq vísitalan lækkaði um 3,35 prósent.

Viðskipti erlent

Óttast að bandarísk hlutabréf hrynji

Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hafa lækkað í dag en þó ekki eins mikið og óttast var. Yfirlýsingar Seðlabanka Evrópu um að kaupa skuldabréf verst stöddu ríkjanna réð þar mestu um. Óttast er að bandarísk hlutabréf hrynji við opnun markaða klukkan hálf þrjú. Mikið hefur verið um sviptingar á fjármálamörkuðum í morgun. Í nótt sýndu markaðir í Asíu mikla lækkun, til dæmis lækkaði Nikkei vísitalan í Japan um 2,4 prósent og verð á hlutabréfum í Hong Kong, Suður-Kóreu og á Indlandi lækkaði um þrjú til fimm prósent. Þegar hlutabréfamarkaðir í Evrópu opnuðu klukkan sjö í morgun lækkuðu helstu vísitölur álfunnar til að byrja með en síðan dróg úr lækkuninni þegar líða tók á morguninn og var jafnvel vart við hækkun á sumum mörkuðum. Talið er að yfirlýsingar Seðlabanka Evrópu þar sem gefið er til kynna að bankinn ætli sér að kaupa upp skuldir ríkissjóða álfunnar sem verst eru staddir hafi haft einhver áhrif á órólega fjárfesta. Þá hafa G7 ríkin lýst yfir sameiginlegu átaki til að viðhalda fjármálastöðugleika og efnahagsbata. Yfirlýsingarnar virðast hins vegar ekki hafa dugað til en nú fyrir fréttir sýndu allar helstu vísitölur í Evrópu lækkun um eitt til tvö og hálft prósent en um þrjár klukkustundir eru þar til markaðir loka.

Viðskipti erlent

Evrópumarkaðir taka við sér

Hlutabréf á mörkuðum um allan heim hafa lækkað í morgun eftir að Standard og Poors lækkuðu lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna á föstudaginn var. Í Evrópu hækkaði verðið þó þegar liðið hefur á morguninn.

Viðskipti erlent

Verðfall á mörkuðum í Asíu

Hlutabréf á mörkuðum í Asíu og í Ástralíu lækkuðu mikið í morgun en þetta voru fyrstu markaðirnir til að opna eftir að Standard & Poors lækkuðu lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna á föstudaginn.

Viðskipti erlent

Hittast á neyðarfundi til að ræða stöðuna á mörkuðum

Stjórn Seðlabanka Evrópu mun koma saman á neyðarfundi í dag til þess að ákveða hvort bankinn eigi að kaupa skuldir ítalska ríksins til þess að reyna að ná stöðugleika á fjármálamörkuðum. Robert Peston, viðskiptafréttamaður hjá BBC fréttastofunni, segir að stjórnin sé klofin í afstöðu sinni til málsins.

Viðskipti erlent

Lánshæfismat Bandaríkjanna lækkað

Matsfyrirtækið Standard & Poor's lækkaði lánshæfismat bandaríska ríkisins í gærkvöld. Matið var fært úr efsta þrepi, eða AAA í næstefsta þrep sem er AA+, með neikvæðum horfum. Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem lánshæfismat Bandaríkjanna er lækkað. Ástæðan er áhyggjur af hallarekstri Bandaríkjanna.

Viðskipti erlent

Obama: Við munum komast í gegnum þetta

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fagnar nýjum tölum um atvinnuþáttöku/atvinnuleysi sem birtust í Bandaríkjunum í dag. Hann leggur áherslu á að skapa þurfi enn fleiri störf til þess að efnahagslífið blómstri.

Viðskipti erlent

Dregur úr falli evrópskra hlutabréfamarkaða

Tekið er að draga úr falli evrópskra hlutabréfamarkaða en fréttavefur breska ríkisútvarpsins segir fjárfesta hafa þungar áhyggur af skuldakreppu á evrusvæðinu og veikri stöðu bandaríska hagkerfisins. Þegar hlutbréfamarkaðir í evrópskum kauhöllum opnuðu fyrir viðskiptum klukkan sjö í morgun lækkuðu allar helstu hlutbréfavísitölur. Þýska vísitalan DAX hefur lækkað um rúm tvö prósent, Nasdaq hefur lækkað um rúm fimm prósent og í Lundúnum lækkaði FTSE vísitalan um tvö komma tuttugu og átta prósent.

Viðskipti erlent

Vefsíða Financial Times hrundi

Óróinn á hlutabréfamörkuðum í Evrópu þar sem vísitölur sveiflast upp og niður, þó aðallega niður, frá mínútu til mínútu hafa valdið mikilli eftirspurn eftir nýjustu fjármálafréttunum. Af þeim sökum hrundi vefsíði blaðsins Financial Times um tíma í morgun þar sem hún gat ekki annað umferðinni inn á hana.

Viðskipti erlent

Olíuverð aftur á uppleið

Töluvert hefur dregið úr niðursveiflunni á heimsmarkaðsverði á olíu síðan í morgun. Brent olían er komin í 108 dollara fyrir tunnuna en snemma í morgun hafði verðið hrapað niður í 104 dollara.

Viðskipti erlent

Grunuð um brot í starfi

Franskur dómstóll ætlar að rannsaka embættisverk Christine Lagarde, nýs framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, frá þeim tíma sem hún var fjármálaráðherra Frakklands. Lagarde er grunuð um að hafa þrýst á fyrrverandi ríkisbankann Credit Lyonnais um að fallast á bindandi málamiðlun í deilu við Adidas-auðkýfinginn Bernard Tapielle sem hann hafði tapað fyrir rétti.

Viðskipti erlent

Mikil lækkun á hlutabréfamörkuðum

Hlutabréfamarkaðir víða um heim hríðféllu í dag og er ástæðan talin vera sú að fjárfestar hafi áhyggjur af því að hagvöxtur verði hægari en áður var talið. Menn hafa líka áhyggjur af skuldavanda Evrópuríkja, svo sem Ítalíu og Spánar. Ástandið er grafalvarlegt og vestanhafs óttast menn að önnur dýfa fylgi á eftir kreppunni 2007 og 2008.

Viðskipti erlent

Barroso segir að evrukreppan smiti út frá sér

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, varar við því að skuldakreppa evruríkjanna sé að breiðast út til ríkja utan myntbandalagsins. Í bréfi til ríkisstjórna innan Evrópusambandsins hvatti hann til þess að evrusvæðinu yrði veittur fullur stuðningur.

Viðskipti erlent

Reynir að róa markaði

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, reynir nú að róa markaði en skuldastaða Ítalíu er slæm. Gagnrýnendur forsætisráðherrans segja hann sjálfan hlut vandans.

Viðskipti erlent

Grunur um að framkvæmdastjóri AGS hafi misbeitt valdi

Franskur dómstóll rannsakar nú hvort Christine Lagarde, nýr yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafi misnotað vald sitt í stöðu fjármálaráðherra Frakklands. Lagarde er sökuð um að hafa þrýst á banka í deilum við kaupsýslumann sem studdi kosningabaráttu Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands. Fréttaritari BBC segir að málið sé mjög neyðarlegt fyrir Lagarde. Einungis um mánuður er síðan hún tók við embætti framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir að Dominique Strauss Kahn hætti.

Viðskipti erlent

Bandaríkin halda lánshæfiseinkunn sinni

Matsfyrirtækin Moody´s og Fitch Ratings hafa ákveðið að Bandaríkin haldi topplánshæfiseinkunn sinni AAA en hún er sett á athugunarlista með neikvæðum horfum. Standard & Poor´s hefur einnig sett einkunnina á athugunarlista.

Viðskipti erlent