Erlent

Bush gagnrýnir valið á Edwards

George Bush Bandaríkjaforseti gagnrýnir John Kerry fyrir að velja John Edwards sem varaforsetaefni demókrata og segir að hann sé óhæfur til að gegna embætti forseta. Fréttaskýrendur telja valið eðlilegt þar sem Edwards vegi upp flesta galla Kerrys. John Kerry og John Edwards komu í fyrsta skipti fram saman opinberlega í dag eftir að Kerry tilkynnti val sitt á varaforsetaefni í gær. Einsog venja er við aðstæður sem þessar fór vel á með þeim og fjölskyldum þeirra. John Edwards sóttist eftir því að verða forsetaefni demókrata en tapaði þeim slag fyrir Kerry. Nú standa þeir saman að því að skipta um stjórn í Hvíta húsinu. Edwards segir kosningabaráttuna sem framundan er snúast um framtíðina og að endurheimta vonina. Hann segir fólk þrá að trúa því aftur að hlutirnir fari batnandi. Fréttaskýrendur telja Edwards eðlilegt mótvægi við Kerry þar sem hann hafi yfir sér yngra og fersklegra yfirbragð en Kerry hefur helst verið gagnrýndur fyrir að vera stífur og þunglamalegur kerfiskarl. Edwards er því líklegur til að ná til ólíkra kjósenda, auk þess sem hann er frá Suðurríkjunum, en Kerry frá Massachussets. Hjá því verður samt ekki litið að Edwards hefur minni stjórnmálareynslu en nokkurt annað varaforsetaefni síðustu 20 árin. Bush forseti segir hann óhæfan til að verða forseti, öfugt við Dick Chaney, núverandi varaforseta. Bush lýsti því jafnframt yfir að hann hyggðist vinna sigur í heimafylki Edwards, Norður-Karolínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×