Innlent

Fella lögin úr gildi

Framsóknarmenn sjá þá einu lausn í fjölmiðlamálinu að fella lögin úr gildi. Allsherjarnefnd kemur saman til fundar klukkan tíu í fyrramálið. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 ætluðu Davíð og Halldór að ræðast við í síma í dag og er tóninn þannig í framsóknarmönnum að eina lausnin sé að fella lögin úr gildi. Þá er bæði komið í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og þann möguleika að forsetinn synji líka nýja fjölmiðlafrumvarpinu. Davíð Oddsson var í veiði um helgina í Laxá í Leirársveit. Halldór Ásgrímsson hefur verið á heimaslóðum fyrir austan en Davíð hafði á orði fyrir helgina að Halldór þyrfti tíma vegna andláts móður sinnar. Jarðarförin fer fram á miðvikudaginn og því ljóst að Halldór stoppar ekki lengi í bænum. Líklegt er því að þeir hittist á morgun. Framsóknar- og sjálfstæðismenn sem Stöð 2 hefur rætt við um helgina hafa sagt nokkurn veginn það sama: að verið sé að vinna í málinu. Framsóknarmenn tala um lausn en sjálfstæðismenn tala um að tíma þurfi til að skoða jafn veigamikla hluti sem snerti m.a. stjórnarskrá landsins. Margir voru á faraldsfæti en þó ítrekuðu nokkrir við fréttamann að það útilokaði ekki að menn gætu verið í sambandi og unnið í málinu. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt forsætisráðherra fyrir afskipti af störfum allsherjarnefndar og telur að verið sé að tefja málið. Hvað sem gerist á fundi allsherjarnefndar á morgun hefur orðið alger viðsnúningur frá því sem var fyrr í sumar. Nú liggur þingmönnum stjórnarandstöðunnar lífið á en ekki þingmönnum stjórnarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×