Viðskipti erlent

Yukos í gjaldþrot?

Sérfræðingar í olíuviðskiptum hafa nú áhyggjur af því að vöruflæði frá rússneska fyrirtækinu Yukos kunni að stöðvast innan skamms og fyrirtækið að verða gjaldþrota. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa lýst því yfir að félagið hafi ekki tök á að greiða um þrjú hundruð milljóna skattakröfu. Því síður þrjú hundruð milljarða til viðbótar sem skattayfirvöld hafa nýlega gert kröfu um. Sendiherra Bandaríkjanna í Rússlandi segir að mál Yukos vekji spurningar um stöðu réttarríkisins og eignarréttinda í landinu. Yukos framleiðir um tvö prósent af allri olíu á heimsmarkaði og því hefði truflun á framleiðslu hjá félaginu áhrif á heimsmarkaðinn. Fari félagið í greiðsluþrot er líklegt að aðrir fjárfestar verði fljótir að koma félaginu til bjargar en Yukos er talið vera meðal best reknu olíufyrirtækja heims. Helsti eigandi Yukos, hinn fangelsaði Mikhail Khordokovskí, hefur boðist til þess að láta hlut sinn í félaginu ganga upp í skattaskuld og hafa forsvarsmenn fyrirtækisins gert ellefu sáttatilboð um lausn skattamálsins en ekkert þeirra hefur borið árangur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×