Innlent

Óvíst um áhrif á verð hér

Stórum áfanga í átt til alþjóðlegs viðskiptakerfis var náð á sunnudaginn þegar 147 aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, gerðu með sér rammasamkomulag um landbúnað og vöruviðskipti. Ísland er í flokki þeirra ríkja sem tekið verður sérstakt tillit til, vegna erfiðra framleiðsluskilyrða landbúnaðarvara, þegar samningurinn verður útfærður nánar. Þróunarríkin fá svigrúm varðandi afnám tolla á iðnaðarvörum sem eru þeim mikilvæg og fátækustu ríkin munu ekki þurfa að lækka tolla. Að sögn Stefáns Hauks Jóhannssonar, formanns samninganefndar WTO um viðskiptakjör iðnaðarvara, er einungis um rammasamkomulag að ræða og því hefur ekki enn verið samið um hvaða aðferðafræði verði beitt eða hvaða markmiðum eigi að ná. "Íslensk stjórnvöld hafa verið að gera breytingar á landbúnaðarstefnu sinni og mun það gera þeim mun auðveldara fyrir. Það er alveg óljóst á þessu stigi hvaða áhrif þetta mun hafa hér á landi en í samningnum er gert ráð fyrir svigrúmi fyrir ríki eins og okkar sem búa við hvað erfiðustu framleiðsluskilyrðin," segir Stefán Haukur Jóhannesson, Að sögn Stefáns er of snemmt að segja til um hvaða áhrif rammasamningurinn kemur til með að hafa. Enn eigi eftir að takast á um nánari útfærslur og reiknireglur og ekki sé útlit fyrir að lokasamningar náist fyrr en jafnvel í byrjun árs 2007. Algjörlega óvíst er hvaða áhrif rammasamningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar mun hafa á verð á landbúnaðarvörum hér á landi á komandi árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×