Innlent

Ráðherra ekki heyrt af óánægju

Heilbrigðisráðherra segist ekki hafa heyrt af óánægju innan SÁÁ með þann þjónustusamning sem er í gildi við ríkið. Stjórn samtakanna hefur gagnrýnt heilbrigðisyfirvöld fyrir að taka engan þátt í kostnaði við meðferð ungra sprautufíkla. Stjórn SÁÁ sendi frá sér harðorða ályktun í gær þar sem sagt er óviðunandi að heilbrigðisyfirvöld taki engan þátt í kostnaði við meðferð ungra sprautufíkla sem háðir eru ópíumefnum eins og morfíni og heróíni og sækja meðferð á göngudeild við Sjúkrahúsið Vog. Stjórnin lýsir furðu sinni á því að sjúklingum skuli mismunað með þessum hætti og skorar jafnfram á ríkisstjórnina að bæta úr þessu. Ályktun samtakanna og óánægja virðist koma Jóni Kristjánssyni heilbrigðisráðherra á óvart. Hann sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann vissi ekki til þess að erindi vegna þess máls hefði borist frá samtökunum, né heldur að samningaviðræður hefðu staðið yfir vegna þess. Hann segir þjónustusamning hafa verið í gildi milli ríkisins og göngudeildarinnar á Vogi í um tvö ár. Ríkið bæri því kostnað af þeirri meðferð sem göngudeildin veitir og að hann vissi ekki betur en að ánægja væri með þann samning Hins vegar væri eðlilegt að taka upp viðræður um breytingar á samningum telji SÁÁ þörf vera á því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×