Erlent

Kerry leitar í smiðju Clintons

John Kerry, forsetaframbjóðandi demókrata, virðist hafa svarað efasemdum margra flokksbræðra sinna um kosningabaráttu sína með því að leita í smiðju síðasta demókrata á forsetastóli, Bills Clinton. Kerry ræddi við Clinton í á annan tíma áður en hann gekkst undir hjartaaðgerð og er tekinn til við að ráða gömlu ráðgjafa forsetans til starfa við kosningabaráttu sína í stórum stíl. Að sögn bandaríska dagblaðsins New York Times ráðlagði Clinton Kerry að hætta að tala jafnmikið um tíma sinn í Víetnam og Kerry hefur gert til þessa. Þess í stað ráðlagði Clinton honum að draga fram andstæður í málflutningi sínum og George W. Bush Bandaríkjaforseta um hvernig ætti að skapa ný störf og haga stefnunni í heilbrigðismálum. Það er ekki aðeins forsetinn fyrrverandi sem kemur að kosningabaráttu Kerrys því síðustu daga hefur hann ráðið marga fyrrum aðstoðarmenn Clintons til starfa í kosningabaráttu sinni, reyndar svo marga að farið er að tala um tvær kosningastjórnir þótt Kerry og hans menn neiti því. Meðal þeirra sem hafa verið ráðnir til starfa eru Joe Lockhart, fyrrum blaðafulltrúi Clintons, Joel Johnson og Doug Sousnik. Þá er gert ráð fyrir því að nokkrir helstu stjórnenda kosningabaráttu Clintons 1992, James Carville og Paul Begala auk Stanleys Greenberg komi til með að hafa mikil áhrif í kosningabaráttu Kerrys.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×