Innlent

Hækkun hlutabréfa langt umfram spár

Kauphöll Íslands
Kauphöll Íslands MYND/Valli

Hækkanir á skráðum hlutabréfum í Kauphöll Íslands hafa aldrei verið meiri á einu ári en á árinu 2005. Forstjóri Kauphallarinnar segir erfitt að spá um hvernig næsta ár þróast.

Hlutabréf hér á landi hafa verið á mikilli siglingu síðustu þrjú árin. Úrvalsvístala Kauphallarinnar hefur hækkað um 64% á árinu. Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar telur að fyrirtækin standi undir þeim hækkunum sem hafa orðið á síðust árum. Ef horft sé á árangur fyrirtækjanna sé ekki annað að sjá en að flestar fjárfestingar þeirra séu byggðar á traustum grunni. Hafa beri þó í huga að fjárfestingar sem þessi fyrirtæki hafi ráðist í komi til með að ráða því hversu góð afkoma þeirra verði. Ekki sé hægt að sjá það fyrr en eftir ákveðinn tíma hver arðsemi verði af þessum fjárfestingum.

Þórður segir erfitt að segja fyrir um hvernig næsta ár muni þróast. Flestir sögðu fyrir ári að það myndi ekki koma annað ár eins og árið 2004 og flestir spáðu 10-15% hækkun á hlutabréfum á árinu 2005. Þórði sýnist sem margir spái svipuðum hækkunum á næsta ári. Þórður segir mikilvægt að þeir sem séu að fjárfesta í hlutabréfum skoði vel þætti eins og líklegan árangur af fjárfestingum fyrirtækjanna erlendis og einnig hvað sé að gerast í efnahagslífinu hér heima.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×