Rick Wagoner, forstjóri bandaríska bílaframleiðandans General Motors (GM), vísaði því á bug í sjónvarpsviðtali í dag að hann hefði verið mótfallinn samstarfi við franska bílaframleiðandann Reunault og hinn japanska Nissan.
„Það gæti ekki verið fjær sannleikanum,“ sagði hann á sjónvarpsstöðinni CNBC og benti á að hann hefði komið til viðræðna við báða bílaframleiðendurna með opnum huga. Hann hefur fram til þessa verið sagður á móti samstarfinu.
Þetta var í fyrsta sinn sem Wagoner tjáir sig um hugsanlegt samstarf bílaframleiðendanna síðan bandaríski auðkýfingurinn Kirk Kerkorian, sem er stór huthafi í GM, greindi frá því í bréfi til stjórnar fyrirtækisins að bílaframleiðendurnir hefðu áhuga á samstarfi. Komið hefur til tals að bílaframleiðendurnir kaupi 20 prósenta hlut í GM í tengslum við þetta.
GM hefur átt í gríðarlegum fjárhagsörðugleikum síðustu misserin en fyrirtækið hefur sagt upp 35.00 manns og áætlar að loka nokkrum verksmiðjum á næstu tveimur árum.
Wagoner sagði ennfremur að hann nyti stuðnings meirihluta stjórnar GM og vísaði því á bug að hagræðing fyrirtækisins gengi hægt.