Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segir í samtali við norska dagblaðið Dagsavisen koma til greina að norska ríkið kaupi hluti sænska og danska ríkisins í norræna flugfélaginu SAS.
Markaðsvirði hlutanna er sagt nema 8,1 milljarði norskra króna eða jafnvirði 87 milljarða íslenskra króna.
SAS er skráð í OMX-kauphöllina. Sænska ríkið á 21,4 prósenta hlut í félaginu en danska ríkið á 14,3 prósent líkt og norska ríkið. Almennir hluthafar eiga afganginn eða helming hlutafjár.