Möguleikhúsið frumsýnir splunkunýtt barnaleikrit á morgun. Verkið Höll ævintýranna eftir Bjarna Ingvarsson fjallar um líflegan sagnaþul sem hefur fjölda sagna og ævintýra í farteski sínu sem hann færir í leikrænan búning á einfaldan hátt. Geiturnar þrjár trítla yfir brúna þar sem risinn ógurlegi liggur í leyni, undurfögur höll býr yfir ótal ævintýrum og haltur hani svífur um loftin blá á vængjum ímyndunaraflsins.
Sýningin er miðuð við áhorfendur á aldrinum tveggja til átta ára en vitaskuld geta áhorfendur á öllum aldri skemmt sér yfir ævintýrum en áhorfendur fá að taka virkan þátt í atburðarásinni.
Leikari sýningarinnar er Bjarni Ingvarsson og leikstjóri Sigurður Sigurjónsson, tónlist er eftir Jónas Þóri og Katrín Þorvaldsdóttir hannaði leikmynd, búninga og leikgervi.
Leikritið verður frumsýnt í Möguleikhúsinu við Hlemm kl. 14 á morgun.