Innlent

Stýrivextir hækkaðir um 75 punkta

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti um 75 punkta frá og með 4. apríl.

Eftir hækkun verða stýrivextir bankans 11,5 prósent. Aðrir vextir bankans verða einnig hækkaðir um 0,75 prósentustig frá 1. apríl.

Greiningardeildir bankanna höfðu spáð 50 til 75 punkta hækkun stýrivaxta, enda væru horfur á töluverðri verðbólgu með vorinu.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri sendi skýr skilaboð um að bankinn ætlaði sér að ná verðbólgumarkmiði sínu og væri tilbúinn að hækka stýrivexti verulega til að af því mætti verða.

Á blaðamannafundi klukkan ellefu í morgun þar sem kynnt var nýjasta rit Peningamála, rit bankans um efnahagsmál, voru nefndir stýrivextir upp í allt að 16 til 17 prósent, en um leið áréttað að ekkert væri fullyrt um að til þessa þyrfti að koma.

Bankinn segir verðbólguhorfur hafa dökknað verulega frá því að Peningamál komu út síðast í byrjun desember og við því væri brugðist með hækkun vaxtanna nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×