Olíuverð hækkaði lítillega á mörkuðum í dag í kjölfar lækkana síðustu daga og fór yfir 70 dollara markið á ný á helstu mörkuðum. Verð á olíu, sem afhent verður í næsta mánuði, hækkaði um 14 sent í kauphöllinni í New York í Bandaríkjunum og stendur verðið í 70,08 dollurum á tunnu. Verð á Norðursjávarolíu hækkaði um 21 sent á markaði í Lundúnum í Bretlandi og stendur nú í 70,50 dollurum á tunnu.
Olíuverð hefur lækkað nokkuð í vikunni, þó mest í gær í kjölfar þess að orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna greindi frá því í vikulegri skýrslu sinni að olíubirgðir landsins hefðu aukist. Lækkunin nam 2,34 dollurum í New York og endaði í 69,94 dollurum á tunnu.