Þeir eru 2.576 talsins, einstaklingarnir sem hafa boðið sig fram til sveitarstjórna landsins fyrir kosningarnar sem fara fram undir lok mánaðarins. Þetta fer nærri því að vera jafnmargir frambjóðendur á landsvísu og allir íbúar Grindavíkur. Svo mikið er víst að um það bil einn af hverjum áttatíu landsmönnum á kosningaaldri er í framboði en flestir eiga reyndar litla möguleika á að komast að í sveitarstjórn. Til þess eru þeir of aftarlega á lista.
Alls komu fram 172 framboðslistar í þeim 60 sveitarfélögum þar sem listakosningar eru viðhafðar. Akureyringar hafa úr mestu að velja, í það minnsta ef litið er til fjölda framboða. Sex listar eru í framboði og er það meira en í nokkru öðru sveitarfélagi landsins. Minnst er valið hins vegar í Breiðdalshreppi og Tjörneshreppi - og reyndar hafa kjósendur ekkert val því aðeins kom fram einn framboðslisti í hvoru sveitarfélagi um sig.