Forráðamenn Evrópumeistara Barcelona hafa vísað fregnum dagsins í dag á bug og segja félagið ekki vera að undirbúa tilboð í miðjumanninn Frank Lampard.
Orðrómur hafði verið á kreiki um að miðjumaðurinn Deco væri óánægður í herbúðum Barcelona og sögðu fréttir snemma í dag að hann yrði boðinn sem skiptimynt fyrir enska landsliðsmanninn. Þessu hefur nú verið vísað til föðurhúsanna af yfirmanni knattspyrnumála hjá spænsku meisturunum.
"Deco átti erfitt tímabil í vetur vegna meiðsla, en hann er nú óðum að ná sér og ég veit ekki annað en að hann sé mjög ánægður með lífið hérna."