Ástralska flugfélagið Qantas hefur tekið yfirtökutilboði ástralska fjárfestingabankans Macquarie, bandaríska sjóðsins Texas Pacific og annarra fjárfesta. Tilboðið hljóðar upp á 11,1 milljarð bandaríkjadal eða ríflega 771 milljarð íslenskra króna. Þetta er einhver stærstu fyrirtækjakaup í flugheiminum.
Stjórn Qantas, sem hafði áður hafnað tilboðinu, mælti hins vegar með því að hluthafar flugfélagsins tækju því í gær.
Yfirtökutilboðið hefur allt frá því það var upphaflega lagt fram snert streng í brjóstum Ástrala sem hafa gert kröfu um að flugfélagið verði áfram í meirihlutaeigu landsmanna og biðluðu þeir til John Howards, forsætisráðherra Ástralíu, að hann beitti sér gegn sölunni. Samkvæmt áströlskum fyrirtækjareglum mega erlendir fjárfestar ekki eiga meira en 49 prósent í Qantas samanlagt. Eignarhlutur hvers fjárfestis, sem búsettur er erlendis, má hins vegar ekki fara yfir fjórðung í félaginu.
Fjármálayfirvöld í Ástralíu eiga enn sem komið er eftir að gefa samþykki sitt fyrir kaupunum auk þess sem hluthafar Qantas munu kjósa um það á næstunni.