Skoðun

Enn um samvinnufélög

Jón Sigurðsson skrifar
Í grein minni hér í Fréttablaðinu 19. júní sl. vakti ég athygli á því að í samvinnufélagi á ekki að myndast neitt „fé án hirðis", en þetta gerðist hérlendis vegna sérstakra sögulegra og lagalegra ástæðna. Eftir lagabreytingar 2001 eru þessar ástæður ekki lengur fyrir hendi.



Samvinnuformið hefur dafnað bæði vestan hafs og austan á undanförnum árum. Það hentar hópum sem hafa hagsmuni að verja en leita ekki eftir hámörkun einkaarðs. Það hentar í velferðar- og félagsþjónustu, á menntasviði og í húsnæðis- og fjölskylduþjónustu. Auk þess hentar það t.d. sem þjónustu- og framkvæmdaafl á jaðarsvæðum og í dreifbýli.



Í grein minni gat ég þess að takmarkanir eru á ráðstöfun stofnsjóðseignar í samvinnufélagi. Þannig fylgir t.d. aðild einstaklings að samvinnufélagi viðskiptalegri þátttöku og erfist ekki skv. 17.gr. laga um samvinnufélög. Aftur á móti ber samvinnufélagi skv. 38.gr. laganna að greiða erfingjum inneign í stofnsjóði við andlát félagsmanns.



Í samvinnustarfi þekkjast ýmis sérstæð félagsform. Eitt þeirra er gagnkvæm félög, einkum á sviði trygginga. Eins og nafnið bendir til hafa þau sérstöðu. Starfshættir þeirra og verkssvið hafa t.d. verið skilgreind ólíkt því sem átt hefur við um íslensk kaupfélög.



Samvinnutryggingar störfuðu sem gagnkvæmt félag og voru skrásettar þannig meðal annarra samvinnufélaga. Sigurður G. Guðjónsson lögmaður vék réttilega að þessu í grein hér í Fréttablaðinu 20. júní sl. - en í sérstökum tilgangi eins og sjá má af grein hans.

Höfundur er fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi rektor Samvinnuháskólans.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×