Viðskipti innlent

Glitnir fram úr væntingum

Glitnir skilaði 9,5 milljörðum króna í hús á öðrum ársfjórðungi sem var rúmum 1,1 milljarði króna meira en meðaltalsspá markaðsaðila hljóðaði upp á. Þetta er næstbesti ársfjórðungur bankans frá upphafi en sá besti kom á öðrum ársfjórðungi í fyrra þegar félagið hagnaðist um ellefu milljarða króna. Nam arðsemi eiginfjár 24,2 prósentum á síðasta fjórðungi.



Á fyrri árshelmingi var hagnaður bankans 16,5 milljarðar króna og myndaðist 45 prósent af hagnaði fyrir skatta utan Íslands.

Hreinar rekstrartekjur hafa aldrei verið hærri en þær námu alls 23,2 milljörðum króna á fjórðungnum. Sem fyrr liggur tekjuvöxtur bankans í gegnum þóknunartekjur sem námu 8,9 milljörðum króna og jukust um 22 prósent frá fyrsta ársfjórðungi. Hreinar vaxtatekjur, sem hækkuðu um sama hlutfall, voru 9,7 milljarðar króna. Hreinar fjármunatekjur og aðrar rekstrartekjur voru rúmir 4,6 milljarðar.

Rekstrarkostnaður vex þónokkuð. Hann var 12,1 milljarður, óx um fjörutíu prósent frá fyrsta ársfjórðungi og hefur tæplega tvöfaldast á milli ára. Aukinn launakostnaður skýrir þennan vöxt en starfsmönnum bankans hefur fjölgað um 500 frá áramótum.

Heildareignir bankans stóðu í 2.335 milljörðum króna í lok júní og hafa vaxið um fjögur prósent á árinu. Eigið fé var 151 milljarður. Eiginfjárhlutfall (CAD) er hátt eða um 13,2 prósent en eiginfjárþáttur A um 9,4 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×