Menning

Sæmdur riddarakrossi frönsku heiðursorðunnar

Freyr Gígja Gunnarsson skrifar
Sigurður Pálsson hefur fengið tvær mikilsmetnar orður frá franska ríkinu og því augljóst að Fransmenn kunna vel að meta störf skáldsins.
Sigurður Pálsson hefur fengið tvær mikilsmetnar orður frá franska ríkinu og því augljóst að Fransmenn kunna vel að meta störf skáldsins.
„Mér var tilkynnt þetta ekki alls fyrir löngu. Maður fær engar nákvæmar skýringar heldur bara tilkynningu,“ segir rithöfundurinn Sigurður Pálsson en Frakklandsforseti hefur ákveðið að sæma hann Chevalier de l’Ordre National du Mérite eða riddarakrossi frönsku heiðursorðunnar.

Sigurður þarf trúlega ekki að fara til Frakklands til að veita henni viðtöku heldur mun sendiherra Frakka hér á landi væntanlega sjá um það fyrir forsetann. „Enda skilst mér að Sarkozy sé ákaflega upptekinn maður,“ segir Sigurður en bætir því við að hann taki við orðunni af auðmýkt og stolti. Rithöfundurinn segist á hinn bóginn ekki vera vel að sér í orðum í þessari merkingu en honum skiljist að riddarakross frönsku heiðursorðunnar tilheyri frönsku heiðursfylkingunni.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Frakkar heiðra Sigurð fyrir störf hans því fyrir sautján árum fékk hann riddaraorðu lista og bókmennta af hálfu menningamálaráðherra Frakka, Jack Lang. Til gamans má geta að breski hjartaknúsarinn Jude Law fékk einmitt þá orðu fyrr á þessu ári.

Sigurður gerir einmitt upp árin sín í París, frá 1967 til 1982, í sinni nýjustu bók sem kallast einfaldlega Minnisbók. „Þetta er búið að vera í vinnslu mjög lengi og ég var þó nokkurn tíma að finna rétta taktinn. En svo fyrir þremur árum fór þetta að koma og ég er mjög sáttur,“ útskýrir Sigurður en hann var nýorðinn nítjan ára þegar hann lagði land undir fót og hélt til Toulouse í Suður-Frakklandi „Ég var síðan kominn tímanlega til Parísar áður en stúdentabyltingin hófst 1968,“ útskýrir Sigurður en þar lærði hann meðal annars hvernig á að verjast táragasi með klút vættum í sítrónusafa og forðast að vera króaður inni af óeirðalögreglu.

Og skáldið ætlar að taka þátt í óvenjulegri en franskri kynningu að frumkvæði tískuvöruverslunarinnari Liborius sem hyggst hafa Minnisbókina í sérstakri forsölu hinn þriðja nóvember. „Þetta er eitthvað sem ég þekki vel frá Frakklandi þar sem úrvalsbúðir bjóða upp á slíka þjónustu. Og svo er bara gaman að taka þátt í þessari nýjung í kynningu á bókum sem kemur sér vonandi vel fyrir bóksöluna,“ segir Sigurður en hann mun verða á staðnum og árita bókina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×