Sport

NFL deildin í útrás

NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn amerísku ruðningsdeildarinnar NFL hafa nú staðfest að fyrsti leikurinn utan Norður-Ameríku verði haldinn í London á næsta ári. Ekki er búið að staðfesta hvar leikurinn fer fram, en talið er að Wembley leikvangurinn verði fyrir valinu. Aðeins einu sinni hefur verið spilaður leikur í NFL deildinni utan Bandaríkjanna og það var í Mexíkó árið 2005.

Eigendur í NFL samþykktu í október að halda tvo deildarleiki utan Bandaríkjanna á hverju tímabili næstu fimm árin og hefst þetta nýja fyrirkomulag í ár þegar einn leikur verður spilaður utan Ameríku. Forráðamenn NFL líta á þetta sem kynningu fyrir deildina utan Bandaríkjanna og ætla að auka veg og virðingu íþróttarinnar með þessu uppátæki.

Tilkynnt verður þann 2. febrúar hvar leikurinn verður haldinn, en eins og áður sagði er það Wembley sem þykir líklegasti áfangastaðurinn - annars verður það líklega rugby-leikvangurinn Twickenham. Fréttir frá Bandaríkjunum herma að það verði Miami Dolphins og New York Giants sem spili leikinn.

Fyrsti leikurinn í NFL sem fram fór utan Bandaríkjanna fór fram í Mexíkóborg árið 2005, þar sem 103,467 manns sáu viðureign Arizona Cardinals og San Francisco 49ers. Aldrei í sögunni hafa fleiri áhorfendur séð leik í NFL.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×