Bandaríska flugsamsteypan AMR Corp., móðurfélag bandaríska flugfélagsins American Airlines, skilaði 17 milljóna dala hagnaði á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Þetta jafngildir tæpum 1,2 milljarða króna hagnaði sem er viðsnúningur frá milljarða taprekstri á sama tíma árið 2005.
Á fjórðungnum árið 2005 skilaði félagið 600 milljóna dala tapi en það jafngildir því að AMR Corp. hafi tapað 42,3 milljörðum íslenskra króna.
Tekjur félagsins á tímabilinu námu 5,4 milljörðum dala eða 380,7 milljörðum íslenskra króna sem er 200 milljóna dala hækkun á milli ára.
Helsta ástæðan fyrir betri afkomu á síðasta fjórðungi er lægri rekstrar- og eldsneytiskostnaður.