Viðskipti erlent

Hagvöxtur í Japan umfram spár

Hagvöxtur mældist 1,3 prósent á fjórða ársfjórðungi í Japan í fyrra samanborið við 1,2 prósenta hagvöxt á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt útreikningum japönsku hagstofunnar. Þetta er ívið meira en greinendur höfðu gert ráð fyrir. Hagvöxtur mældist 5,5 prósent á ársgrundvelli í fyrra og hefur hann ekki verið meiri í þrjú ár.

Að sögn japönsku hagstofunnar eru Japanir bjartsýnni um horfur í efnahags- og atvinnumálum nú en áður.

Ekki er víst hvort niðurstaðan hafi áhrif á vaxtaákvörðun japanska seðlabankans sem hefur í tvígang hækkað stýrivexti bankans á síðastliðnum sex árum með það fyrir augum að blása lífi í glæður efnahagslífsins. Stýrivextirnir standa nú í 0,5 prósentum og hafa þeir ekki verið hærri í áratug.

Stjórnmálamenn í landinu hafa þrýst á seðlabankann að bankastjórnin haldi að sér höndum og hækki ekki vexti í bráð því það geti dregið úr neyslu almennings og fyrirtækja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×