Viðskipti innlent

Tveir líklega fallnir úr kapphlaupinu um Merck

Þýska lyfjafyrirtækið Stada og bandaríska lyfjafyrirtækið Barr verða að öllum líkindum ekki með í kapphlaupinu um yfirtöku á samheitalyfjahluta Merck. Nokkur fyrirtæki eru enn í kauphugleiðingum, þar á meðal Actavis.

Í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans í dag segir að Stada hafi dregið sig úr samkeppni um kaupin en að ráðgjafar Merck hafi sömuleiðis afskrifað Barr sem hugsanlegan kaupanda.

Fyrir utan Actavis eru nokkur lyfjafyrirtæki enn í myndinni sem kaupendur á samheitalyfjahlutanum. Þar á meðal eru ísraelska fyrirtækið Teva, indverska fyrirtækið Ranbaxy og Mylan, sem er með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum.

Talið er að samheitalyfjahluti Merck muni kosta um fimm milljarða evrur, jafnvirði um 450 milljarða íslenskra króna, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

Deildin minnir á verðmat sitt á Actavis í Vegvísinum. Þar segir að mælt sé með kaupum á bréfum í félaginu og að vænt markgegni sé 81,9 krónur á hlut. Til samanburðar stóð lokaverð á gengi bréfa í Actavis í 69,1 krónu á hlut í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×