Viðskipti innlent

Bjartsýni hjá forráðamönnum fyrirtækja

Forráðamenn fyrirtækja í byggingariðnaði eru á meðal þeirra sem eru bjartsýnir um horfur í efnahagslífinu næsta hálfa árið.
Forráðamenn fyrirtækja í byggingariðnaði eru á meðal þeirra sem eru bjartsýnir um horfur í efnahagslífinu næsta hálfa árið. Mynd/GVA

Mikill meirihluti forráðamanna fyrirtækjanna, 80 prósent, telur aðstæður í efnahagslífinu fara batnandi. Hlutfall þeirra sem telja aðstæður í efnahagslífinu betri hefur hækkað á síðustu mánuðum og er enn mjög hátt. Fyrirtæki í samgöngum, flutningum og þjónustu, bygginga starfsemi og veitum og í sérhæfðri þjónustu eru bjartsýnust á ástandið í efnahagslífinu.

Þetta kemur fram í könnun fjármálaráðuneytis, Seðlabanka Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem Capacent Gallup gerði á á tímabilinu 2. til 28. febrúar. Svarhlutfall var 68 prósent. Alls tók 251 fyrirtæki þátt í könnuninni i en í endanlegu úrtaki voru 392 fyrirtæki.

Í niðurstöðum könnunarinnar, sem birtar eru í Vefriti fjármálaráðuneytis, segir að almennt virðist bjartsýni hafa aukist hjá forráðamönnum fyrirtækja um horfur í efnahagslífinu á næsta hálfa árinu og vísað til þess að vísitala efnahagslífsins fyrir sex mánuði mælist 118 stig, sem er sex stiga hækkun frá því í september í fyrra.

Bjartsýnin virðist minnka lítillega fyrir næstu 12 mánuði en vísitalan mældist 110 stig sem er 28 stigum minna en í fyrri könnun, að því er segir í niðurstöðunum.

Hlutfall þeirra sem telja að aðstæður batni á næstu 6 til 12 mánuðum helst óbreytt frá síðustu mælingu en örlítil fjölgun hefur verið hjá þeim sem telja að ástandið versni. Útskýrir það lækkunina á milli kannana.

Ef borin eru saman viðhorf forráðamanna fyrirtækja í mismunandi starfsemi eru það helst fyrirtæki í verslun og byggingastarfsemi og veitum sem eru bjartsýnni en fyrirtæki í sjávarútvegi og samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu sem eru svartsýnni.

Vefrit fjármálaráðuneytisins





Fleiri fréttir

Sjá meira


×