Bandaríska Dow Jones-vísitalan fór í sögulegar hæðir þegar hún rauf 13.000 stiga múrinn við lok viðskipta á bandaríska hlutabréfamarkaðnum í dag. Vísitalan hefur verið á hraðri uppleið, ekki síst eftir að uppgjörshrinan hófst vestanhafs í síðustu viku en afkoma fyrirtækja á fyrsta fjórðungi ársins er í mörgum tilvikum yfir væntingum.
Fram til þessa hafa 19 fyrirtæki af þeim 30 sem skráð eru í Dow Jones-vísitöluna skilað uppgjörum sínum fyrir afkomuna á fyrstu þremur mánuðum ársins.
Af þessum 19 fyrirtækjum hefur afkoma 13 þeirra verið afspyrnugóð og umfram það sem greinendur spáðu. Sló það á áhyggjur manna að samdráttur á fasteignalánamarkaði vestanhafs í byrjun marsmánaðar hefði skilað sér út efnahagslífið. Enn þykir samt óvíst hver skref Seðlabanka Bandaríkjanna verður á næsta vaxtaákvörðunarfundi bankans.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir greinendum vestra að þegar hægir á hjólum efnahagslífsins þá hafi það allajafna þau áhrif að afkoma fyrirtækja verður yfir væntingum. Þá gengur stórfyrirtækjum oft vel í samdrættinum, að sögn greinendanna, þar sem stærstur hluti af veltu þeirra kemur erlendis frá.