Viðskipti innlent

Kaupþing með rúma 20 milljarða í hagnað

Kaupþing.
Kaupþing. Mynd/Stefán

Kaupþing skilaði 20,3 milljarða króna hagnaði á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við 18,8 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Þetta er í takt við spár greiningardeilda.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að hagnaður hluthafa eftir skatta jókst um 7,9 prósent á milli ára.

Rekstrartekjur námu 44,1 milljarði króna sem er 24,3 prósenta aukning frá sama tíma í fyrra. Þá nam rekstrarkostnaður 17,7 milljörðum króna sem er 41,1 prósenti meira en í fyrra.

Arðsemi eigin fjár á fyrsta ársfjórðungi var 27,6 prósentum á ársgrundvelli. Hagnaðurinn nam 27,4 krónum á hlut samanborið við 28,3 krónur í fyrra.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, segir í tilkynningu frá bankanum að árið fari vel af stað og að allar starfstöðvar bankans hafi skilað góðri afkomu. „Bankinn hefur aldrei áður verið jafn vel í stakk búinn til áframhaldandi vaxtar og horfur á helstu mörkuðum hans eru góðar," segir hann.

Uppgjör Kaupþings






Fleiri fréttir

Sjá meira


×