Viðskipti innlent

Treysta öðrum en íslenskum fyrirtækjum

Íslenskir áhrifavaldar bera mest traust til sænskra, þýskra og kanadískra alþjóðafyrirtækja. Íslensk fyrirtæki lenda í fjórða til fimmta sæti yfir þau fyrirtæki sem mesta traustsins njóta. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar rannsóknar Capacent Gallup og AP almannatengsla á trausti íslenskra „áhrifavalda", en rannsóknin er sambærileg alþjóðlegri könnun sem almannatengslafyrirtækið Edelman hefur framkvæmt síðustu átta ár.

Niðurstöðurnar verða kynntar í heild sinni á málþingi í Salnum í Kópavogi á fimmtudag.

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að um 61 prósent segjast bera frekar eða mikið trausts til alþjóðafyrirtækja með höfuðstöðvar á Íslandi en mest traust er borið til sænskra fyrirtækja (75%), þýskra (74%) og kanadískra (66%). Japönsk fyrirtæki deila svo fjórða til fimmta sætinu með þeim íslensku.

Sænsk, þýsk og kanadísk fyrirtæki tróna einnig á toppi alþjóðlegu rannsóknarinnar, en athyglisvert verður þó að teljast að Íslendingar beri minna traust til íslenskra fyrirtækja heldur en fyrirtækja frá þessum þremur löndum. Minnst traust bera íslenskir áhrifavaldar svo til rússneskra (1%), mexíkóskra (3%), brasilískra (4%) og pólskra (7%) fyrirtækja.

Kannaðir voru fjölmargir aðrir þætti sem snúa að trausti og trúverðugleika í könnuninni og verða niðurstöðurnar kynntar nánar á málþinginu 3. maí. Þar mun David Brain, framkvæmdastjóri Edelman í Evrópu, jafnframt kynna niðurstöður alþjóðlegu könnunarinnar, sem eru jafnan kynntar á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos og hafa vakið mikla athygli síðustu ár.

Könnun Capacent Gallup er sambærileg traustskönnun Edelman, en hún mælir viðhorf skilgreindra áhrifavalda. Þeir eru háskólamenntað fólk á aldrinum 35-64 ára sem fylgist með fjölmiðlum og hefur heildartekjur yfir 400.000 krónum á mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×