Viðskipti innlent

Hagnaður TM eykst

Merki Tryggingamiðstöðvarinnar.
Merki Tryggingamiðstöðvarinnar.

Tryggingamiðstöðin skilaði hagnaði upp á 886 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 626 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Rekstrartap af vátryggingastarfsemi nam fimm milljónum króna sem er talsverður viðsnúningur frá síðasta ári þegar tapið nam 215 milljónum króna.

Í uppgjör Tryggingamiðstöðvarinnar kemur fram að bókfærð iðgjöld hafi ríflega tvöfaldast á milli ára og námu þau 8.675 milljónum króna samanborið við 4.082 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Rekstrarhagnaður nam 1.369 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 1.150 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi í fyrra.

Eigið fé samstæðu Tryggingamiðstöðvarinnar minnkaði lítillega á milli ára. Það nam tæpum 21,3 milljörðum króna í lok fjórðungsins nú samanborið við tæpa 22 milljarða krónur í lok fyrsta ársfjórðungs í fyrra.

Heildareignir Tryggingamiðstöðvarinnar námu 73.812 milljónum króna í lok tímabilsins og jukust þær um sex prósent frá áramótum.

Þá kemur fram að norska vátryggingarfélagið Nemi hafi orðið hluti af Tryggingamiðstöðinni frá byrjun september í fyrra og hafi áhrif á samanburð rekstrar og efnahags Tryggingamiðstöðvarinnar.

Óskar Magnússon, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, segir í uppgjörinu, að áframhaldandi vöxtur vátryggingastarfsemi einkenni starfsemi félagsins á Íslandi en að tjónaþróun tveggja vátryggingagreina á Íslandi sé enn áhyggjuefni. „Tap er enn af slysatryggingum sjómanna og hafa þær ráðstafanir sem gripið var til á árinu 2006 ekki skilað sér að öllu leyti. Tjónaþróun í greininni er sérstakt áhyggjuefni. Frjálsar ökutækjatryggingar eru reknar með tapi en gripið var til ráðstafana til að snúa þeirri þróun við undir lok ársins 2006," segir hann.

Uppgjör Tryggingamiðstöðvarinnar





Fleiri fréttir

Sjá meira


×