Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Cerberus Capital Management ætlar að kaupa 80,1 prósent hlut í bandaríska bílaframleiðandanum Chrysler. Kaupverð nemur 5,5 milljörðum evra, jafnvirði 477 milljörðum íslenskra króna.
Þýsk-bandaríski bílaframleiðandinn DaimlerChrysler, móðurfyrirtæki Chrysler í Bandaríkjunum, greindi frá þessu fyrir stundu.
Fréttirnar urðu til þess að gengi bréfa í fyrirtækinu hækkaði um sjö prósent í kauphöllinni í Þýskalandi.
Eftir kaupin mun DaimlerChrysler eiga rétt undir 20 prósenta hlut í Chrysler.
Gert er ráð fyrir því að kaupin gangi í gegn á þriðja fjórðungi ársins.
Dieter Zetsche, forstjóri og stjórnarformaður DaimlerChrysler, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið, í dag að með viðskiptunum verði til nýtt upphaf fyrir bæði Daimler og Chrysler.
Chrysler-hluti Daimler hefur átt við mikinn taprekstur að stríða, ekki síst eftir að verð á eldsneyti fór í sögulegt hámark á síðasta ári sem varð til þess að draga mjög úr sölu á nýjum bílum.